„Þetta var alls ekkert erfitt heldur bara ótrúlega gaman,“ sagði Sigrún Þuríður Geirsdóttir sem synti í dag ásamt þremur öðrum sjósundskonum frá Reykjavík til Akraness. Á sundinu sem tók átta og hálfa klukkustund mættu þær meðal annars tveimur hrefnum.
Konurnar, Sigrún Þuríður, Ragnheiður Valgarðsdóttir, Kristbjörg Rán Valgarðsdóttir og Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, lögðu af stað klukkan tíu í morgun og komu að landi klukkan 18.28. Sigrún sagði að á fyrstu kílómetrunum hefði verið töluverð ölduhæð auk þess sem nokkur straumur var við Hvalfjörð. Um helming leiðarinnar hafi hins vegar verið afar gott í sjóinn og sundið ljúft. Leiðin er um 22 kílómetrar í beinni sjónlínu.
„Við syntum framhjá alveg svakalegum makríltorfum og svo voru tvær hrefnur í svona 150 metra fjarlægð frá okkur. Óhætt er að segja að það hafi verið áskorun að stinga sér til sunds með hrefnu svona nálægt. það var frekar gaman og eitthvað sem maður gerir ekki á hverjum degi,“ sagði Sigrún.
Sundinu skiptu þær á milli sín og syntu í klukkutíma hver. Þær fengu því góða hvíld á milli, gátu hlýjað sér og nærst. Allar eru þær vanar sjósundskonur, fara nokkrum sinnum í sjóinn á viku yfir sumartímann en um tvisvar í viku hverri á veturna. „Við förum í Nauthólsvík á veturna en á sumrin syndum við hér og þar um landið.“
Segja má að það sé orðin hefð hjá þeim að þreyta sjósund á þessum tíma árs. „Í fyrra kvöddum við sumarið með Viðeyjarsundi og okkur fannst tilvalið að kveðja þetta góða sumar með Akranessundi. Við ætlum svo að taka okkur veturinn til að ákveða hvað við gerum næst, en það verður pottþétt eitthvað,“ sagði Sigrún að lokum.