Hafði ekki hugmynd að hennar væri leitað

Björgunarsveitarfólk að störfum.
Björgunarsveitarfólk að störfum.

Mannleg mistök urðu til þess að leit var hafin að erlendri konu við Eldgjá í gær. Konan hafði ekki hugmynd um að hún væri sú sem leitað væri að. Oftalið var í rútuna.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir konuna alsaklausa. Hún hafi alls ekki verið að blekkja samferðafólk sitt eða björgunarsveitarmenn sem hófu leit að henni eftir hádegið í gær. Konan fór líklega úr einhverjum af þeim fötum sem hún var í er áð var í Eldgjá en rútan var á leið á milli Landmannalauga og Skaftafells. Hún hafði svo sjálf ekki kannast við lýsinguna sem gefin var á „týndu konunni“ og samferðamenn hennar báru ekki kennsl á hana eftir fataskiptin.

„Konan hafði ekki hugmynd um að hún væri týnd,“ segir Sveinn.

Sveinn segir að um 50 björgunarsveitarmenn hafi leitað hennar í gær við Eldgjá. Um miðnætti fóru að renna tvær grímur á leitarmenn og um kl. þrjú í nótt var leit hætt - enda þá orðið ljóst að konan var alls ekki týnd heldur hafði verið í rútunni allan tímann.

Lýsingin sem gefin var af konunni í gær er eftirfarandi: „Konan er af asískum uppruna, um 160 cm á hæð, dökkklædd og talar góða ensku. Hún er á aldrinum 20-30 ára og með litla, ljósa hliðartösku.“

Ung stúlka í rauðri kápu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem konu er leitað sem er ekki týnd. Sagt var frá því í Vísi 7. september 1954 að mikil leit hefði verið gerð að ungri stúlku í rauðri kápu. Hún hafði farið til berjatínslu í Kjós með hundrað manna hópi en ekki skilað sér til baka. Leitað var fram í myrkur og auglýst eftir henni í útvarpinu. Síðar kom í ljós að hún hafði sjálf tekið þátt í leitinni. Misskilningurinn stafaði af því að gefin hafði verið röng lýsing á fatnaði stúlkunnar „og raknaði ekki úr flækjunni fyrr en stúlkan gaf sig fram við lögregluna og taldi líklegt að leitin hefði verið gerð sín vegna“.

Frétt mbl.is: Tók þátt í leit að sjálfri sér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka