„Frekar svalt er í lofti núna miðað við ágústmánuð, en þetta er þó ekki óvenjulegt,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, en næturfrosts varð vart á nokkrum stöðum á landinu í nótt. Kaldast var á Brúsastöðum í Vatnsdal en þar féll hitastigið niður í -5,3 gráður. „Einnig fraus á Húsafelli og Blönduósi,“ segir Hrafn. Næturfrostið var aðallega bundið við norðvesturhluta landsins en vægt frost var líka á Norðausturlandi. Þannig fór hitastig niður í -1,4 gráður á Reykjum í Fnjóskadal. Í Reykjavík fór hitinn ekki niður fyrir 5,5 gráður.
Að sögn Hrafns mun hlýna þegar líða tekur á vikuna. „Á fimmtudag og föstudag fer hitinn að hífast upp aftur en það verður svolítill lægðagangur, blautt og hvasst inn á milli þangað til,“ segir Hrafn. „Það er því ekki útlit fyrir bjart og gott veður, en þó milt,“ segir Hrafn.