Aðstaða á tjaldstæði Patreksfjarðar var skelfileg í sumar og til dæmis var aðeins eitt salerni starfrækt þar. Framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru frestuðust þar sem ekki fengust iðnaðarmenn í verkið. Þetta segja fulltrúar Bæjarmálafélagsins Samstöðu.
Málið var tekið fyrir í bæjarstjórn Vesturbyggðar fyrir helgi. Þar var meðal annars rætt um bókun Bæjarmálafélagsins Samstöðu en í henni er harmað að framkvæmdir við Félagsheimili Patreksfjarðar skuli ekki hafa verið kláraðar eins og til stóð fyrir sumarið.
Til stóð að halda áfram uppbyggingu og bæta aðstöðu fyrir tjaldstæðisgesti innandyra en fyrir síðasta sumar var búið að koma fyrir tveimur salernum og vaski í um fimmtán fermetra rými. Sú aðstaða var hins vegar brotin niður. „Einungis eitt salerni hefur verið starfsrækt í sumar og aðstaðan verið vægast sagt skelfileg. Skýringarnar hafa verið að ekki hafi fengist iðnaðarmenn í verkið sem til stóð að vinna og fjármunir voru settir í á fjárhagsáætlun 2012.“
Þá lýsa fulltrúar Samstöðu furðu á þeirri ákvörðun að brjóta niður veggi og fjarlægja þá aðstöðu sem búið var að koma upp síðasta sumar og var tilbúin til notkunar. Með litlum tilkostnaði hefði mátt bæta við aðstöðuna þannig hún hefði verið sómasamleg í sumar, þrátt fyrir ókláraðar framkvæmdir fyrir innan. „Það var okkar skilningur að sú aðstaða sem komin var upp myndi nýtast áfram, á meðan prjónað væri við aðstöðuna fyrir innan í áföngum og ekki að það sem frágengið væri yrði brotið niður og fjármunir færu þannig til spillis.“
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar hafnar því alfarið að aðstaðan á tjaldstæðinu sé skelfileg. Þegar hafi verið byggð upp glæsileg útiaðstaða en því miður hafi ekki tekist að klára inniaðstöðuna fyrir sumarið. „Aðalatriðið er að við fáum ekki iðnaðarmenn. Uppbygging á svæðinu hefur verið svo mikil og hröð, og fáir iðnaðarmenn sem hér búa.“ Hún segir málið hins vegar í vinnslu og framkvæmdum verði að öllum líkindum lokið í haust.
Hún segir að þegar fyrir sé frábær aðstaða, t.d. fyrir húsbíla og fellihýsi. Og þó svo aðeins sé eitt salerni hafi það ekki komið að sök. Það hafi alltaf verið aðeins eitt salerni á svæðinu. Hins vegar stendur til að fjölga þeim og það er hluti af framkvæmdunum. Jafnframt hafi verið komið upp sturtum og aðgengi fyrir fatlaða aukið. Hún segir að fulltrúar Samstöðu séu því að reyna slá pólitískar keilur með málflutningi sínum.