Gísli J. Ástþórsson látinn

Gísli J. Ástþórsson
Gísli J. Ástþórsson

Gísli J. Ástþórsson, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, ritstjóri, teiknari og rithöfundur, lést sl. laugardag, 89 ára að aldri.

Gísli fæddist í Reykjavík 5. apríl 1923. Foreldrar hans voru Sísí Matthíasson húsmóðir og Ástþór Matthíasson lögfræðingur. Gísli lauk BA-prófi í blaðamennsku frá University of North Carolina árið 1945 og varð þar með fyrsti Íslendingurinn með háskólamenntun í því fagi.

Að loknu námi réðst Gísli til Morgunblaðsins þar sem hann starfaði sem blaðamaður næstu fimm árin. Síðan vann hann ýmis störf bæði til sjós og lands, og stofnaði meðal annars og ritstýrði fréttablaðinu Reykvíkingi sem kom út hálfsmánaðarlega með níu tölublöðum árið 1952.

Hann var svo ritstjóri Vikunnar frá 1953-1958 og Alþýðublaðsins frá 1958-1963. Það var á Alþýðublaðsárunum að fyrstu ádeiluteikningar hans birtust við upphaf fyrsta þorskastríðsins 1958. Teiknimyndasagan hans um Siggu Viggu, fiskvinnslustúlkuna í gúmmístígvélunum, birtist einnig fyrst í Alþýðublaðinu en síðar í Morgunblaðinu og nokkrum bókum.

Eftir að Gísli hætti sem ritstjóri Alþýðublaðsins vann hann um tveggja ára skeið á dagskrárdeild Ríkisútvarpsins, en sneri sér síðan að kennslu í gagnfræðaskóla.
Hann réðst svo aftur til Morgunblaðsins árið 1973 þar sem hann starfaði til 1993, en þá lét hann af störfum vegna aldurs. Það var á þessum árum hans á Morgunblaðinu að ádeiluserían „Þankastrik“ leit dagsins ljós, en hún hélt svo áfram á DV eftir að Gísli hætti á Morgunblaðinu.

Eftir Gísla liggja átta bækur, skáldsögur og smásagnasöfn, auk þess sex kiljur með myndasögunum um Siggu Viggu og félaga. Loks hefur Gísli skrifað fjögur leikverk, þar af þrjú sjónvarpsleikrit.

Eftirlifandi eiginkona Gísla er Guðný Sigurgísladóttir og eignuðust þau þrjú börn.
Að leiðarlokum þakkar Morgunblaðið Gísla fyrir störf hans við blaðið og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert