Gísli J. Ástþórsson látinn

Gísli J. Ástþórsson
Gísli J. Ástþórsson

Gísli J. Ástþórs­son, fyrr­ver­andi blaðamaður á Morg­un­blaðinu, rit­stjóri, teikn­ari og rit­höf­und­ur, lést sl. laug­ar­dag, 89 ára að aldri.

Gísli fædd­ist í Reykja­vík 5. apríl 1923. For­eldr­ar hans voru Sísí Matth­ías­son hús­móðir og Ástþór Matth­ías­son lög­fræðing­ur. Gísli lauk BA-prófi í blaðamennsku frá Uni­versity of North Carol­ina árið 1945 og varð þar með fyrsti Íslend­ing­ur­inn með há­skóla­mennt­un í því fagi.

Að loknu námi réðst Gísli til Morg­un­blaðsins þar sem hann starfaði sem blaðamaður næstu fimm árin. Síðan vann hann ýmis störf bæði til sjós og lands, og stofnaði meðal ann­ars og rit­stýrði frétta­blaðinu Reyk­vík­ingi sem kom út hálfs­mánaðarlega með níu tölu­blöðum árið 1952.

Hann var svo rit­stjóri Vik­unn­ar frá 1953-1958 og Alþýðublaðsins frá 1958-1963. Það var á Alþýðublaðsár­un­um að fyrstu ádeilu­teikn­ing­ar hans birt­ust við upp­haf fyrsta þorska­stríðsins 1958. Teikni­mynda­sag­an hans um Siggu Viggu, fisk­vinnslu­stúlk­una í gúmmí­stíg­vél­un­um, birt­ist einnig fyrst í Alþýðublaðinu en síðar í Morg­un­blaðinu og nokkr­um bók­um.

Eft­ir að Gísli hætti sem rit­stjóri Alþýðublaðsins vann hann um tveggja ára skeið á dag­skrár­deild Rík­is­út­varps­ins, en sneri sér síðan að kennslu í gagn­fræðaskóla.
Hann réðst svo aft­ur til Morg­un­blaðsins árið 1973 þar sem hann starfaði til 1993, en þá lét hann af störf­um vegna ald­urs. Það var á þess­um árum hans á Morg­un­blaðinu að ádeiluserí­an „Þan­kastrik“ leit dags­ins ljós, en hún hélt svo áfram á DV eft­ir að Gísli hætti á Morg­un­blaðinu.

Eft­ir Gísla liggja átta bæk­ur, skáld­sög­ur og smá­sagna­söfn, auk þess sex kilj­ur með mynda­sög­un­um um Siggu Viggu og fé­laga. Loks hef­ur Gísli skrifað fjög­ur leik­verk, þar af þrjú sjón­varps­leik­rit.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Gísla er Guðný Sig­ur­gísla­dótt­ir og eignuðust þau þrjú börn.
Að leiðarlok­um þakk­ar Morg­un­blaðið Gísla fyr­ir störf hans við blaðið og send­ir fjöl­skyldu hans inni­leg­ar samúðarkveðjur.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert