Staðan „óljós og ruglingsleg“

„Flestir þeir félagar í VG sem látið hafa að sér kveða um ESB-mál á undanförnum árum ákváðu að sitja heima og mæta ekki á fundinn á Hólum eftir að fréttist að almennar umræður yrðu aðeins leyfðar í vinnuhópum,“ segir á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB þar sem nokkrir áhrifamenn innan Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs skrifa um Evrópumál.

Þar er brugðist við gagnrýni Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns VG, á heimasíðu hans þar sem hann sagði að þeir sem einkum hefðu tjáð sig í fjölmiðlum um flokksráðsfund flokksins sem fram fór á Hólum í Hjaltadal um helgina væru einstaklingar sem ekki hefðu verið sjálfir á fundinum.

Fram kemur á vefsíðunni að eftir flokksráðsfundinn, sem sagður var fámennur, sé staða VG í ESB-málinu „vægast sagt óljós og ruglingsleg“. Þá er Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, harðlega gagnrýnd og hún sögð hafa varpað „olíu á eldinn með grófum árásum á andstæðinga ESB-aðildar“. Katrín gagnrýndi hörðustu andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu í ræðu sinni meðal annars fyrir að vera einsmálsfólk. Fátt hefði orðið um svör þar sem almennar umræður hefðu ekki verið leyfðar.

Fundurinn ekki ályktunarfær?

„Flokksráðfundurinn sem reyndar var svo fámennur að hann var ekki ályktunarfær samþykkti engu að síður ályktun þar sem málefnum ESB er vísað til frekari umræðu innan flokksins og samfélagsins alls,“ segir á vefsíðunni. Þá hafi Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tekið undir tillögu þess efnis að aðildarviðræðurnar við ESB yrðu endurmetnar. „Nú er að sjá hvernig að því verður staðið,“ segir að lokum.

Pistill á vefsíðunni Vinstrivaktin gegn ESB

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert