Viðræðuslit leiddu til stjórnarslita

Árni Páll Árnason, alþingismaður.
Árni Páll Árnason, alþingismaður. mbl.is/GSH

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði á fundi hjá Sterkara Íslandi í dag, að krefjist Vinstri grænir þess að viðræðum við Evrópusambandið verði slitið og umsókn um aðild að sambandinu verði dregin til baka þýddi það að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið og boðað yrði tafarlaust til alþingiskosninga.

Frásögn af fundinum er birt á vef Já Ísland. „En auðvitað er eðlilegt að eiga við VG samtal um þessa þætti eins og aðra,“ hefur vefmiðillinn eftir Árna Páli. „Ég óttast ekki að eiga við þá samtal um aðstæður í Evrópu og hvort þær hafi þau áhrif að það verði síður fýsilegt en ella að ganga inn í Evrópusambandið.“

Árni Páll sagði að það hefðu verið mistök af hálfu Samfylkingarinnar að binda ekki betur um hnúta í stjórnarsáttmálanum til að koma í veg fyrir að ráðherrar VG gætu tafið fyrir framgangi aðildarviðræðnanna í sínum ráðuneytum eins og raun hefði orðið.

Árni Páll kallaði í erindi sínu eftir því að betur þyrfti að útskýra og rökstyðja aðildarumsókn Íslands út frá íslenskum hagsmunum í alþjóðlegu samhengi. „Þá þýðir ekki að ræða málin eingöngu út frá fiski og landbúnaði. Það eru miklu ríkari hagsmunir sem búa að baki þessari aðildarumsókn,“ sagði Árni Páll. „Hún snýst hvorki meira né minna um það hvernig Ísland geti verið hluti af hinu alþjóðlega hagkerfi.“

Ákvörðun um að draga umsóknina til baka núna á sama tíma og við getum ekki uppfyllt skyldur okkar gagnvart EES – þeim eina samningi sem við eigum aðild að um aðgang að hinu alþjóðlega hagkerfi – mundi fela í sér einangrun Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka