Fá ekki gögn í nauðgunarrannsókn

Loftmynd sem sýnir Herjólfsdal í Vestmannaeyjum
Loftmynd sem sýnir Herjólfsdal í Vestmannaeyjum mynd/Frosti Heimisson

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglustjórans á Selfossi um að Símanum verði gert að afhenda lögreglu upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem náðu inn í Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili aðfaranótt frídags verslunarmanna.  Sneri Hæstiréttur þar við niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands sem hafði fallist á beiðni lögreglu. 

Lögreglan á Selfossi rannsakar kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku aðfaranótt mánudagsins 6. ágúst sl. við Fjósaklett í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Stúlkan hefur gefið lýsingu á sakborningi og klæðnaði hans og telur lögreglan að við skoðun á upptöku úr eftirlitskerfi, sem sett var upp vegna Þjóðhátíðar um helgina, megi sjá karlmann, sem svipi til lýsingar á sakborningi, hlaupa frá brotavettvangi.

Á upptökunni megi einnig greina að maðurinn tali í farsíma. Lögreglan telur mikilvægt að fá umbeðnar upplýsingar um símtöl í Herjólfsdal á þessu tímabili svo sanna megi deili á þeim manni sem sést á upptökunni úr eftirlitskerfinu.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til að afla gagna samkvæmt lögum um meðferð sakamála væri íþyngjandi rannsóknarúrræði sem fæli í sér undantekningarreglu frá 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og af þeim sökum yrði ákvæðið ekki skýrt rýmra en leiðir af texta þess.

Skilyrði til að afla umræddra gagna væri að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hefði verið notað í tengslum við refsivert brot. Í því máli sem hér var til meðferðar beindist krafa lögreglu ekki að tilteknum síma eða fjarskiptatæki, heldur að því að veittar yrðu allar upplýsingar um alla farsíma sem hringt var úr eða í um fjarskiptamöstrin á tilgreindum tíma. Þar sem krafa lögreglustjóra gekk lengra en rúmaðist innan orðalags 80. gr. laga um meðferð sakamála er henni hafnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka