Haustlegt um að litast norðanlands

Ófært er nú á Sprengisandi vegna snjóa
Ófært er nú á Sprengisandi vegna snjóa www.mats.is

Sumri er tekið að halla og til marks um það var jörð varð víða hvít á hálendinu í morgun. Næturfrost var víða í nótt, kaldast á hálendi mældist -2,3°C á Grímstunguheiði en á láglendi fór frostið niður í -1,8°C á Haugi, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Sums staðar snjóar enn til fjalla á Norðausturlandi en snjór hefur þó ekki fallið í byggð ennþá að sögn Veðurstofunnar. Haustlegt var þó um að litast sums staðar á Norður- og Norðausturlandi í morgun, þar á meðal á Akureyri þar sem snjór féll niður í miðjar hlíðar Hlíðarfjalls. Í Jökuldal og Svartárkoti er aðeins um 2 stiga hiti og hugsanlegt að gangi á með éljum þar í dag svo og inni á hálendinu að sögn Veðurstofunnar. Um Sprengisand er ófært vegna snjóa, samkvæmt Vegagerðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður áfram kalt í nótt og á miðvikudag enda bjart yfir landinu. Á fimmtudagskvöldið má búast við því að það fari að hlýna með vaxandi suðvestanátt. Frá fimmtudegi til laugardags er útlit fyrir nokkuð milt veður en blautt, en á sunnudag, hinn 2. september, fer aftur kólnandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert