„Fréttaritari Ríkisútvarpsins í London tók langt viðtal við Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, fyrir Spegilinn í síðustu viku, en fréttaritarinn hefur virst vera nokkur áhugamaður um ákærur eftir bankahrun“, segir Sigríður Ásthildur Andersen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir í grein sinni að meðal þess sem fréttaritarinn spurði um var hvort upptökur af einkasímtölum fólks sem sérstakur saksóknari hefði hlerað yrðu birtar á netinu.
Þá segir Sigríður Ásthildur: „Nú er líklega eðlilegast að afgreiða þessa spurningu sem hverja aðra vitleysu sem ekki verðskuldi neina umfjöllun. En hún má einnig vera dæmi um hvernig bankahrunið getur enn ruglað fólk í ríminu og látið það missa sjónar á svo mörgu sem það eflaust myndi skilja mætavel við allar aðrar aðstæður“.
Síðar í grein sinni segir hún: „Og svo aftur sé vikið að spurningu fréttaritarans um hvort upptökur af einkasímtölum fólks verði settar á netið, þá blasir auðvitað við að það verður ekki gert. Menn hafa rannsakað alvarleg mál áður en bankahrunið varð. Menn hafa rannsakað morð, líkamsárásir, nauðganir og flesta glæpi aðra og aldrei nokkurn tíma hefur nokkrum manni dottið í hug að upptökur hleraðra símtala yrðu birtar á netinu. Internetinu!“