Á ellefu ára fresti nær svokölluð sólblettahringrás hámarki en þá er virkni sólarinnar að jafnaði mest og auknar líkur á tilkomumiklum norðurljósum.
Ljósin verða til þegar rafhlaðnar agnir frá sólinni skella á jörðinni og örva efni í lofthjúpnum en Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir það algengan misskilning að ljósin ráðist að einhverju leyti af veðurfari.
Fjölmargir erlendir og íslenskir ferðaþjónustuaðilar hafa nýtt sér væntanlegan norðurljósadans í markaðsherferðum en í Morgunblaðinu í dag segir Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá, söluaðila erlendis uggandi yfir því að umfjöllun um málið hafi verið villandi. „Sannleikurinn er sá að norðurljósin eru mjög fín burtséð frá þessum toppum og umræðan um að þetta sé nánast síðasti séns til að sjá norðurljósin er okkur ekki mjög að skapi,“ segir hann.