Kjósendur ættu að hafa úr nógu að velja fyrir næstu þingkosningar sem fyrirhugaðar eru í apríl á næsta ári ef fer sem horfir en gera má ráð fyrir að á annan tug framboða verði í boði fyrir kosningarnar.
Fyrir utan þá fjóra stjórnmálaflokka sem lengsta sögu eiga, Framsóknarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn, Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og Samfylkinguna, stefnir í að níu önnur framboð gefi kost á sér fyrir næstu kosningar.
Þar hafa einkum verið í umræðunni Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar, sem verið hefur undir forystu Lilju Mósesdóttur, alþingismanns, Björt framtíð undir forystu Guðmundar Steingrímssonar alþingismanns,og Heiðu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Besta flokksins, og Dögun sem er sameiginlegt framboð m.a. Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar og Frjálslynda flokksins.
Þá stefnir Húmanistaflokkurinn einnig á framboð, sem og Píratapartíið undir forystu Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns. Sama er að segja um Lýðfrelsisflokkinn, Bjartsýnisflokkinn og Hægri græna.
Ennfremur má nefna að í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Þorvaldi Þorvaldssyni, sem um árabil hefur verið virkur í starfi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að hann hafi sagt skilið við flokkinn og hyggist beita sér fyrir því að stofna nýjan vinstriflokk.