„Það væri fróðlegt að skoða jarðlögin sem þarna hafa komið í fram í Þúfunni því það hefur sést í þau undanfarin sumur en aldrei svona vel," segir Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur sem stefnir á Snæfellsjökul næstu daga til að skoða jarðlög sem ekki hafa komið undan ís öldum saman.
Ný sýn á gossögu jökulsins
Líkt og sagt var frá á mbl.is í gær flaug Haraldur á þyrlu umhverfis jökulinn um helgina og sá þá að ein af Þúfunum, sem eru hæstu tindar Snæfellsjökuls, er nú snjólaus og telur Haraldur að það sé í fyrsta sinn, enda bráðnar jökullinn nú hratt. Ef veður leyfir vonast Haraldur til að ganga á jökulinn á morgun, því þótt margt sé vitað um gossögu Snæfellsjökull hafa goslög hans ekki verið rannsökuð við tindinn áður.
„Það hafa fengist upplýsingar við rannsóknir niðri á láglendi Snæfellsnes. Þar má sjá þrjú öskulög, það yngsta er um 1.700 ára gamalt, en þá var síðasta stóra sprengigosið í Snæfellsjökli. Svo er annað sem er um 3.800 ára gamalt og það þriðja sem er miklu eldra, kannski um 8.000 ára gamalt. Þessi þrjú sprengigos hafa orðið og svo hafa náttúrulega mörg hraun runnið, en í þessum jarðlögum eru væntanlega frekari upplýsingar sem mig langar til að skoða."
Jökullinn hefur helmingast á rúmri öld
Haraldur bendir á að þótt Snæfellsjökull hafi ekki látið á sér kræla á sögulegum tímum þá hafi tímabundið jarðskjálftamælanet sem sett var umhverfis jökulinn í fyrra leitt í ljós að töluvert er af jarðskjálftum beint undir Snæfellsjökli. „Hann er ekki dauður frekar en Vestmannaeyjar voru dauðar þótt 4.000 ár væru liðin áður en gaus 1973. Þetta verða að teljast virk eldsvæði og það væri mikil þörf á því að setja upp varanlega jarðskjálftamæla.“
Búast má við því að Þúfurnar fari aftur undir snjó innan tíðar þegar kólnar með haustinu en ekki er ólíklegt að þær beri sig aftur næsta sumar. Mikil hlýindi í sumar hafa eflaust haft áhrif á hversu mikið bráðnaði, en jökullinn hefur hopað jafnt og þétt undanfarna öld. Hann er nú um 10 ferkílómetrar að stærð, en eins og sjá má á meðfylgjandi grafi var yfirborð hans um tvöfalt stærra, eða rúmlega 20 ferkílómetrar, um aldamótin 1900. Ef fram heldur sem horfir verður jökulinn því jafnvel horfinn með öllu fyrir lok þessarar aldar eða fyrr.
Leiðinlegt að sjá bara svart fjall
Haraldur segir Snæfellsjökul stöðuga áminningu um hlýnun loftslags enda blasir hann við augum stórs hluta þjóðarinnar alla daga. „Þetta opnar augu almennings fyrir því hvað þetta eru geigvænlegar breytingar sem eiga sér stað. Hugsið ykkur bara hvernig það verður að horfa frá Reykjavík í áttina að Snæfellsnesi og sjá ekki jökulinn heldur bara annað svart fjall. Það verður svolítið leiðinlegt.“
Á sama tíma þýðir hopun jöklanna þó líka að nýtt landslag opnast og þar með möguleikar til rannsókna á áður ókönnuð svæði.