Fimm leiðir færar fyrir framsóknarmenn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Birkir Jón Jónsson, varaformaður …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Birkir Jón Jónsson, varaformaður flokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Framsóknarmenn hafa þegar gengið frá þeim reglum sem gilda munu um val á framboðslista fyrir næstu þingkosningar sem fyrirhugaðar eru í apríl á næsta ári, að sögn Hrólfs Ölvissonar, framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, en það var gert síðastliðið vor.

Reglurnar gera ráð fyrir því að hægt sé að fara fimm leiðir við val á framboðslista í hverju kjördæmi fyrir sig en þær eru póstkosning, lokað prófkjör, tvöfalt kjördæmisþing, uppstilling og loks opið prófkjör. Að sögn Hrólfs er um að ræða mjög skýrar og ítarlegar reglur um hvaðeina sem val á framboðslista varðar.

Spurður að því hvenær búast megi við því að fyrir liggi hvaða leiðir verði farnar segir Hrólfur að það sé einfaldlega umræða sem muni fara fram næstu vikur í kjördæmunum og klárast í október.

Hvað flokksþing Framsóknarflokksins varðar verður ákveðið á miðstjórnarfundi 16.-18. nóvember næstkomandi hvenær þingið fari fram en aðspurður segir Hrólfur að hann telji líklegast að það verði í byrjun febrúar á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert