„Það er auðvitað sorglegt að norskir og evrópskir útgerðarmenn skuli enn og aftur reyna að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti. Þetta sýnir best hvað þeir hafa vondan málstað að verja og verður þeim ekki til framdráttar," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, vegna fullyrðinga forsvarsmanna samtaka sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópusambandinu og Noregi um að makríll sé nú í minna mæli í íslensku efnahagslögsögunni en áður.
Bent er á það á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) í dag að niðurstaða sameiginlegs rannsóknaleiðangurs hafrannsóknastofnana Íslands, Noregs og Færeyja, í sumar sýni að aldrei hafi verið meira af makríl í íslensku fiskveiðilögsögunni en í ár. Það styrki málstað Íslands í fyrirhuguðum viðræðum um skiptingu makrílstofnsins en gert er ráð fyrir að þær fari fram 1. september næstkomandi í London.
Forsvarsmenn samtaka sjávarútvegsfyrirtækja í Evrópusambandinu og Noregi funduðu með Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra sambandsins, síðastliðinn mánudag og settu þar fram fjölmargar kröfur sem þeir vilja að viðræðurnar við Íslendinga og Færeyinga verði grundvallaðar á. Meðal annars að semjist ekki verði verði gert hlé á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.
„Við höfum aldrei verið sérstakir aðdáendur aðildarumsóknarinnar þannig að hótun um frestun viðræðna kemur okkur ekki úr jafnvægi. Stóra málið er að makríll gengur í auknum mæli inn í íslensku lögsöguna og við höfum sama rétt og Noregur og ESB til makrílveiða. Verkefnið er sem fyrr að ná samkomulagi um stjórn veiðanna og tryggja sanngjarnan hlut Íslands í þeim," segir Friðrik.