„Sjálfsleitin“ vekur heimsathygli

Frétt um að ferðakona hefði tekið þátt í að leita að sjálfri sér við Eldgjá á Íslandi á laugardag hefur farið eins og eldur í sinu um erlenda fréttavefi og um hana verið fjallað í að minnsta kosti fjórum heimsálfum.

 Eins og margra fréttavefja er von og vísa í framsetningu á óvenjulegum fréttum sem þessari, fara margir þeirra í orðaleiki um þetta athyglisverða mál. Hér eru aðeins tekin örfá dæmi um útbreiðslu fréttarinnar.

„Ferðamaður fann sjálfan sig á Íslandi“ segir í fyrirsögn á fréttavef útvarpsstöðvarinnar Wnyc en margar útvarpsstöðvar virðast hafa heillast af fréttinni. „Týnd kona gengur til liðs við leitarmenn“, segir í fyrirsögn TNT-tímaritsins.

Nýsjálensku miðlarnir létu fréttina ekki heldur fram hjá sér fara og vitna þar í fréttir mbl.is um málið. Það sama gerir a.m.k. einn fréttavefur í Ástralíu.

Fréttin birtist einnig víða í fréttamiðlum vestanhafs, þannig segir t.d. Albuquerque Express frá málinu og New York Daily News svo dæmi séu tekin.

En fréttin hefur einnig sigrað fleiri heimsálfur - því vefurinn Argentina Star, sem skrifaður er á ensku, birtir frásögn af leitinni - og hinni óvenjulegu niðurstöðu hennar.

Í frétt á vef AOL í Bretlandi er fjallað ítarlega um málið og sagt frá því að umfangsmikil leit hafi verið gerð að ferðakonu en í ljós hafi svo komið að konan var ekki týnd heldur hafði tekið þátt í að leita að sjálfri sér. Með fréttinni fylgir falleg mynd af leitarsvæðinu, Eldgjá, og í greininni er svo fjallað um hvað sé gaman og forvitnilegt að skoða á Íslandi.

Þessi sérstæða frétt hefur því þegar á öllu er á botninn hvolft kynnt landið okkar - og gríðarlega öflugt björgunarsveitarfólk - vel og rækilega.

Frétt mbl.is: Tók þátt í leitinni að sjálfri sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert