Sveitarfélög og skógræktaraðilar miða í mörgum tilfellum við vegalög við ákvörðun um hversu nálægt vegum skógrækt má vera. Á kafla á þjóðveginum við Skógafoss hefur útsýni skerst töluvert vegna skóga sem skyggja á fossinn.
Við veginn frá brúnni yfir Stóru-Laxá og upp að Flúðum er mikil skógrækt og m.a. hefur þurft að skera ofan af öspum sem voru farnar að vaxa upp undir rafmagnslínur.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri hjá Skógrækt ríkisins, sjálfsagt að taka umræðu um skert útsýni til náttúru og fjalla frá vegum vegna skógræktar. Hann segir umræðuna þó ofurlítið fjarstæðukennda á köflum þó að vissulega megi finna staði þar sem skógrækt hafi áhrif.