Segir umsóknina standa í vegi afnáms haftanna

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar

Lilja Mósesdóttir alþingismaður segir að biðin eftir aðildarsamningi að Evrópusambandinu hafi dregist á langinn og komi í veg fyrir að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin. Hún segir Má Guðmundsson seðlabankastjóra ekki telja sig hafa umboð til annars en að vinna að upptöku evrunnar þar sem umsóknarferlið að ESB sé í gangi. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar í dag.

„Þjóðin verður að fá tækifæri til að taka ákvörðun um framhald ESB-umsóknarinnar sem allra fyrst. Umsóknarferlið hefur dregist á langinn. Biðin eftir ESB-aðildarsamningi kemur í veg fyrir afnám gjaldeyrishafta og að lausn verði fundin á krónukreppunni. Seðlabankastjóri segir að hann hafi ekki umboð til að gera neitt annað en að vinna að upptöku evrunnar, þar sem ESB-umsóknarferli sé í gangi. Á meðan sitja Íslendingar í fjötrum gjaldeyrishafta og ósjálfbærrar skuldsetningar,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert