Á þriðja tug eftirskjálfta hefur mælst

Hér má sjá fjöldann af eftirskjálftum sem orðið hafa á …
Hér má sjá fjöldann af eftirskjálftum sem orðið hafa á svæðinu eftir hádegið. Veðurstofa Íslands

„Við höfum mælt 25-30 eftirskjálfta sem við erum að fara yfir. Allir eftirskjálftarnir eru undir stærðargráðunni 2,0. Þetta kemur okkur ekki á óvart enda eru skjálftarnir á þekktu jarðskjálftasvæði og frá vísindalegu sjónarhorni er ekkert merkilegt að gerast,“ sagði dr. Martin Hensch, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, um jarðskjálftann sem varð laust fyrir hádegi og þann fjölda eftirskjálfta sem má sjá á vef Veðurstofunnar.

„Það hafa áður verið stórir jarðskjálftar á svæðinu á þriðja og sjöunda áratug síðustu aldar, en þá mældust á svæðinu jarðskjálftar upp á allt að stærðargráðunni 6,0,“ segir Martin.

Tengist Hellisheiðarvirkjun ekki á neinn hátt

Hann segir skjálftana ekki tengjast starfseminni í Hellisheiðarvirkjun á neinn hátt. „Þetta er allt of langt frá Hellisheiði til að geta tengst henni. Sjálftarnir eru á þekktu jarðskjálftasvæði og ósköp eðlilegir. Við fáum jarðskjálfta sem þessa oft á þessu svæði, sagði Martin og bætti við: „Þessir skjálftar eru heldur ekki undanfarar eldgoss. Þá hefðum við fengið marga minni skjálfta, en þetta er ekki þannig. Bláfjallasvæðið er einfaldlega þekkt jarðskjálftasvæði.“

Spurður hvort hann telji líkur á fleiri stórum skjálftum í kjölfarið sagði hann: „Það er ómögulegt að segja til um hvað gerist og það er of snemmt að segja til um að það muni ekki koma aðrir stórir skjálftar, en þó er ekkert sem bendir til þess í augnablikinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert