„Aldagamalt og sígilt mynstur“

Sigurður Guðmundsson, eigandi verslananna The Viking og Made in Iceland, segir það alrangt að framleiðsla hans sé eftirlíking af hönnun fyrirtækisins Drífu ehf., en framkvæmdastjóri Drífu sakar Sigurð og fleiri um hugverkastuld á ullarvarningi sínum. Sigurður segir að mynstrið sem um ræðir sé aldagamalt og notað víða.

Framkvæmdastjóri Drífu, Ágúst Þ. Eiríksson, sagði í samtali við mbl.is að tvær verslanir hefðu tekið sig saman í því skyni að framleiða ullarvöru sem samsvarar mjög til framleiðslu Drífu og selja síðan á lægra verði. 

„Ég tel það merkileg tíðindi ef fyrirtæki telur sig hafa fundið upp húfuna og vettlinginn. Það sem um ræðir er að aldagamalt og sígilt mynstur, áttablaðarósin, sem er til í hundruðum afbrigða, skuli nú allt í einu vera tallin brot á hönnun.“

Sigurður segir mynstrið vel þekkt víða um hinn norræna heim og ekki þurfi að fara lengra en á næstu bensínstöð til að finna varning með mynstrinu.

Farið var fram á að umræddar vörur yrðu teknar úr sölu og til þess gefinn vikulangur frestur. Því var ekki sinnt og Ágúst segir málið fara annaðhvort dómsleiðina eða til Neytendastofu. Sigurður segir ekki koma til greina að fara eftir þessum tilmælum.

„Nei, ég hyggst ekki taka vörurnar úr sölu, enda engin ástæða til.“

Frétt mbl.is: Segir atlögu gerða að íslenskri hönnun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka