Stúdentar fá 140.600 krónur í námslán á mánuði eða 26.576 kr. minna en atvinnuleysisbætur og endurgreiða með vöxtum og verðtryggingu eftir að námi lýkur, samkvæmt upplýsingum frá hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
„Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar athygli fjölmiðla og umfjöllun þeirra um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Lánasjóðurinn er einn af hornsteinum íslenska menntakerfisins enda á hann að tryggja aðgengi allra að námi, óháð efnahag. Til þess að lánasjóðinum takist að sinna lögbundnu hlutverki sínu þarf grunnframfærslan að vera með þeim hætti að námsmaður geti lifað í íslensku samfélagi. Grunnframfærslan þarf að tryggja þeim sem minnst hafa milli handanna tækifæri á því að stunda háskólanám.
Vissulega má færa fyrir því rök að rétt leið að þessu markmiði sé ekki lán til stúdenta en það er hinsvegar kerfið sem við búum við í dag. Stúdentaráð vill vekja athygli á markmiði sínu, sem er að stjórnvöld hækki fjárframlög til lánasjóðsins svo að grunnframfærslan nái umfram atvinnuleysisbætur. Það skýtur skökku við að hvetja með einni hendi atvinnulausa til háskólanáms en gera það fjárhagslega hagkvæmara fyrir fólk að halda sér á atvinnuleysisbótum.
Nú þegar metfjöldi nýnema streymir inn í Háskóla Íslands bíður þeirra nöturlegur raunveruleiki. Stúdentum er gert að lifa á 140.600 kr. eða 26.576 kr. minna en atvinnuleysisbætur og endurgreiða með vöxtum og verðtryggingu eftir að námi lýkur.
Hver einasti aðili sér að þessi formúla er ekki beint hvetjandi fyrir einstakling sem langar í háskólanám.
Stúdentaráð hvetur stjórnvöld í eitt skipti fyrir öll að stíga skrefið til fulls og hækka fjárframlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna umfram atvinnuleysisbætur. Þá fyrst getur Lánasjóðurinn sinnt lögbundnu hlutverki sínu og aðstoðað stúdenta í gegnum námsárin,“ segir í ályktun SHÍ.