Fyrirtækið Drífa ehf sem framleiðir m.a. ullarfatnað, segir tvær verslanir hafa tekið sig saman í því skyni að framleiða ullarvöru sem svarar mjög til framleiðslu Drífu og selja síðan á lægra verði. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að um hugverkastuld sé að ræða.
Umræddar verslanir sérhæfa sig í sölu minjagripa og ullarvara og hafa selt framleiðslu Drífu í áraraðir. „Við uppgötuðum þetta fyrir tveimur vikum og sendum þá bréf þar sem við fórum fram á að þessar vörur yrðu teknar úr sölu og gáfum til þess sjö daga frest. Hann er nú liðinn og málið í höndum lögfræðinga og það fer annaðhvort dómsleiðina eða fyrir Neytendastofu,“ segir Ágúst Þ. Eiríksson, framkvæmdastjóri Drífu.
Um býsna svipaðan varning er að ræða. Þetta er sígildur fatnaður, gæti ekki verið um tilviljun að ræða?
„Nei, það held ég ekki,“ segir Ágúst. „Þetta er sama efnið, eins merkingar, sömu litir og aðeins örlítill munur á mynstri. Það er mitt mat að líkindin séu það mikil að viðskiptavinurinn gæti ruglast á vörunum. Við erum með íslenska hönnuði í vinnu, þeir leggja mikla vinnu í sín verk og mér sýnist að þarna sé verið að stytta sér leið á ódýran hátt. Ég held að enginn íslenskur hönnuður myndi gera svona lagað. Við viljum standa vörð um íslenska hönnun og þetta er ekkert annað en hugverkastuldur.“
Ágúst hefur rekið Drífu um margra ára skeið og segist ekki hafa lent í öðru eins. „Ég hef svo sem áður séð að fólk fær hugmyndir frá okkur, en hef aldrei lent í svona öfgafullu dæmi. Ég hef aldrei áður lent í því að samstarfsaðili geri svona, þetta voru samstarfsaðilar okkar til marga ára.“