Sjálfstæðismenn segja að niðurstöður árshlutareikningur Reykjavíkurborgar, sem var lagður fram á borgarráðsfundi í dag, sýna því miður að það er orðin regla frekar en undantekning að fjárhagslegar áætlanir standist ekki hjá Reykjavíkurborg.
Hallinn á rekstri A- hluta er hálfum milljarði umfram áætlun og hallinn hjá samtæðu A- og B- hluta tæpum 5 milljörðum umfram áætlun. Á tímum efnahagsþrenginga og aðhalds er sérstaklega mikilvægt að fylgst sé náið með rekstrinum, ábyrgð sé fylgt við allar ákvarðanir og að áætlanir standist. Enn og aftur skortir á það hjá núverandi meirihluta, segir í fréttatilkynningu frá sjálfstæðismönnum í borgarstjórn.
„Það er mikið áhyggjuefni fyrir borgarbúa hversu illa þessum meirihluta gengur að fylgja áætlunum. Á þessa staðreynd höfum við bent í hvert skipti sem árshluta- og ársreikningar eru lagðir fram. Þetta uppgjör nú er engin undantekning, heldur staðfestir að lítið er að marka þær fjárhagsáætlanir sem meirihlutinn leggur fram. Eina ferðina enn eru skatttekjur vanáætlaðar, en þrátt fyrir að meira sé tekið af almenningi en til stóð dugir það ekki fyrir rekstrarkostnaði sem fer langt fram úr þeim áætlunum sem samþykktar voru í lok síðasta árs. Það er alveg ljóst að borgarstjórn verður að fara að skoða af alvöru hvernig stendur á því að áætlanagerð í fjármálum gengur ekki betur. Borgarstjórn verður að átta sig á því hvort haga þarf undirbúninga vegna fjárhagsáætlunar með öðrum hætti eða hvort hér er aðeins um að kenna ófullnægjandi eftirfylgni borgarstjórans og meirihlutans með því að tryggt sé að áætlunum sé fylgt, aðhald sé til staðar og ábyrgð ráði för í rekstrinum,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Við framlagningu ársreiknings 2011 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að ekki eingöngu rekstrarkostnaður fór úr böndunum heldur hafði skuldsetning borgarinnar aukist um 56% á tveimur árum. Það er ekkert lát á skuldsetningunni en í þessu uppgjöri kemur fram að skuldir hafa hækkað um 9% til viðbótar (5 milljarða) á þessu hálfa ári, eða úr 57 milljörðum í 62. Slík skuldaaukning fer að vera nálægt sáraukamörkum fjárhagslegrar stöðu borgarinnar.