Vinna fjögurra þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu sem eiga sæti í atvinnuveganefnd Alþingis við breytingar á tilteknum atriðum í frumvarpinu um stjórn fiskveiða er á lokastigi.
Um er að ræða svokallaðan trúnaðarmannahóp fulltrúa stjórnmálaflokkanna, sem hefur að undanförnu farið yfir ýmis ágreiningsefni í frumvarpinu og á hann að skila af sér niðurstöðum sínum á morgun eða strax eftir næstu helgi.
Í hópnum eru Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður atvinnuveganefndar, Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að á fundunum að undanförnu hefur verið unnið áfram út frá þeim tillögum um breytingar á frumvarpinu sem nefndarmennirnir höfðu að mestu komið sér saman um í júní, m.a. um brottfall umdeildra ákvæða. Þau voru birt í sérstakri yfirlýsingu um afgreiðslu og meðferð sjávarútvegsfrumvarpanna, sem formenn ríkisstjórnarflokkanna undirrituðu þegar samkomulag náðist um þinglokin 18. júní sl.