Sparperurnar taka við kyndlinum

Um mánaðamótin tekur tilskipun Evrópusambandsins gildi innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar sparperur munu taka sess gömlu glóðarperunnar en sparperurnar nota einungis 5% þeirrar orku sem gömlu perurnar nota og eru auk þess langlífari. Þetta hefur ýmsar afleiðingar fyrir fólk og Haukur Hannesson, framkvæmdastjóri Glóeyjar, segir að á hverjum degi sé spurt um breytingarnar og hvort hægt verði að nota gömul ljós og lampa áfram.


Almennt segir Haukur að hægt sé að fá sparperur í flest ljós og lampa en einnig er hægt að fá breytistykki fyrir venjuleg perustæði svo hægt sé að koma halógenperum þar fyrir en hægt verður að fá þær áfram auk þess sem hægt verður að selja gömlu glóðarperurnar áfram þar til birgðirnar klárist.
Töluvert hefur verið sett út á nýju perurnar fyrir að bjóða einungis upp á kuldalega birtu en Haukur segir hægt að velja um hvernig birtan sé og að hægt sé að fá sparperur með hlýlegri birtu.

Haukur segist vera nokkuð sáttur við nýju perurnar og þær breytingar sem þeim fylgja þótt eðlilegt væri að fólk fengi að ráða því sjálft hvernig perur það hefði heima hjá sér og að framkvæmdin sjálf hafi ekki verið óaðfinnanleg. Reglugerðin hafi verið á undan framleiðendum sem bjóði ekki upp á allar þær sparperur sem ættu að vera í boði samkvæmt reglugerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert