„Ég segi skilið við VG vegna þess að ég er sósíalisti og VG er því miður ekki sósíalískur flokkur, heldur kratískur,“ segir Vésteinn Valgarðsson sagnfræðingur, sem setið hefur í stjórn VG í Reykjavík. Hann hefur sagt sig úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði samkvæmt tilkynningu til fjölmiðla og sagt sig frá öllum trúnaðarstörfum sem hann hefur gegnt fyrir flokkinn.
„Ástæðan er megn óánægja með störf og stefnu flokksins í ríkisstjórn, ásamt því að ég tel fullreynt að gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru til að ég gæti átt samleið með flokknum,“ segir hann.
Vésteinn gagnrýnir VG meðal annars harðlega í yfirlýsingunni fyrir undanlátssemi við Samfylkinguna og þjónkun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn auk þess sem hann sakar ríkisstjórnina um að vera sýndarvinstristjórn sem sé „tilbúin til að selja fullveldið fyrir baunadisk“.
„Úrræðaleysi í skuldamálum heimilanna sýnir glöggt að fjármálaauðvaldið hefur hér tögl og hagldir. Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var líka löðrungur sem erfitt verður að gleyma,“ segir hann ennfremur.
Þá segir hann að lokum að Ísland sárvanti sósíalískan stjórnmálaflokk og að það sé verkefnið framundan. „Hann mun aldrei fæðast upp úr vopnahlésályktunum eða skilyrðislausri samstöðu með krötum og tækifærissinnum. Hið nýja verkefni er því að safna liði og stofna þennan flokk.“
Eins og Morgunblaðið greindi frá fyrr í vikunni hefur Þorvaldur Þorvaldsson, sem setið hafði í varastjórn VG, einnig sagt sig úr flokknum og lýst því yfir að hann ætli að beita sér fyrir því að stofnaður verði nýr vinstriflokkur.