Ákæra ekki byggð á ónýtri rannsókn

Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lárus Welding og Óttar Pálsson, verjandi hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Andri Karl

Mál tveggja lögreglufulltrúa sem störfuðu fyrir þrotabú Milestone samhliða vinnu sinni hjá sérstökum saksóknara var áfall. Þetta sagði saksóknari þegar tekist var á um frávísunarkröfu í máli á hendur tveimur bankamönnum. Héraðsdómara er nú að meta afleiðingar gjörða lögreglufulltrúanna.

Málið er höfðað á hendur Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs sama banka. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í stórfellda hættu með tíu milljarða króna lánveitingu til Milestone ehf., í formi peningamarkaðsláns.

Óvíst er hvort fjallað verði efnislega um umrædda lánveitingu en í morgun fór fram munnlegur málflutningur um kröfu verjenda sem vilja málinu vísað frá dómi. Þeir segja bersýnilegan annmarka á málinu og að úr honum verði ekki bætt við rekstur málsins fyrir dómstólum.

Ástæða umræddra annmarka eru störf lögreglufulltrúanna Jóns Óttars Ólafssonar og Guðmundar Hauks Guðmundssonar fyrir þrotabú Milestone samhliða því að rannsaka málið sem síðar var höfðað gegn Lárusi og Guðmundi.

Höfðu verulegra hagsmuna að gæta

Fyrstur tók til máls Óttar Pálsson, verjandi Lárusar. Hann sagði ljóst að lögreglufulltrúarnir höfðu verulegra persónulegra hagsmuna að gæta við rannsóknina. Þeir hefðu verið aðalrannsakendur málsins en á meðan henni stóð þegið um 30 milljónir króna í greiðslur frá þrotabúi Milestone, þ.e. á tveggja mánaða tímabili haustið 2011.

Samningur milli fyrirtækisins lögreglufulltrúanna og þrotabúsins var undirritaður 27. september og gilti hann til 22. nóvember. „Daginn sem ákæra var gefin út í málinu, 15. desember, höfðu þeir unnið um eitt þúsund klukkustundir fyrir þrotabúið og við þingfestingu málsins höfðu þeir unnið ríflega þúsund klukkustundir,“ sagði Óttar og benti á að þeir hefðu báðir setið við hlið saksóknara við þingfestinguna í málinu, þó svo að þeir hefðu þá ekki verið starfsmenn sérstaks saksóknara heldur unnið fyrir embættið í verktöku.

Mennirnir unnu fyrir þrotabúið skýrslu um greiðsluhæfi Milestone fyrir hrun. Þeir skrifuðu skýrslu fyrir þrotabúið þar sem niðurstöður voru þær að líklegt væri að Milestone hefði fjármagnað afborganir og uppgreiðslu lána með ólögmætum hætti frá 30. nóvember 2007.

Ákæran gagn í riftunarmálum

Óttar sagði þrotabúið reyna að sanna að félagið hefði verið ógjaldfært á þessum tímapunkti en skilyrði fyrir því er hægt að uppfylla með því að sýna fram á að skuldir séu greiddar með fjármagni sem fékkst með ólögmætum hætti. „[Lögreglufulltrúarnir] vissu að niðurstaða um ólögmæti lánveitinga Milestone og útgáfa ákæru [á hendur Lárusi og Guðmundi] væri mikils virði. Þeir misnotuðu vitneskju sína og aðstöðu hjá sérstökum saksóknara í eigin þágu með að selja þrotabúinu vinnu, og örugglega með fyrirheitum um niðurstöðu málsins.“

Hann spurði hvort líklegt væri að skiptastjóri þrotabúsins hefði samið við lögreglufulltrúana ef þeir hefðu gefið honum vísbendingu um að ekki yrði ákært í málinu. „Það blasir við að menn sem höfðu hagsmuna að gæta gegndu lykilhlutverki í rannsókninni.“

Jafnframt sagði hann það óumdeilt að lögreglufulltrúarnir komu til skiptastjóra Milestone en ekki öfugt. Þeir hefðu boðið þrotabúinu vinnu sína.

Ennfremur vísaði Óttar til þess að þrotabú Milestone hefði höfðað níu riftunarmál þar sem skýrsla lögreglufulltrúanna var lögð fram. En ekki aðeins hún heldur einnig ákæran á hendur Lárusi og Guðmundi. Óttar sagði þá staðreynd að ákæran er sönnunargagn í riftunarmálunum sýna hvað best að um hagsmunaárekstur væri að ræða.

Lögreglufulltrúarnir hefðu því skuldbundið sig til að skrifa skýrslu þar sem ógjaldfærni Milestone er staðfest, til þess að það væri hægt þurfti niðurstaðan að vera sú í rannsókninni á lánveitingunni til Milestone að um væri að ræða ólögmætt lán.

Rannsóknin öll smituð

Hann sagði óumdeilt í málinu að umræddir lögreglufulltrúar hefðu lagt grunn að rannsókninni, þeir hefðu yfirheyrt vitni og sakborninga, þá útbjuggu þeir rannsóknarskýrslu sem lögð var fram við þingfestingu málsins auk þess að vera ákæranda innan handar við umrædda þingfestingu. „Rannsóknin er öll smituð,“ sagði Óttar og vísaði til þess að hæfisreglur snerust um ásýnd máls út á við og hvort draga mætti hlutleysi í efa með réttu.

Hvað hlutleysir áhrærir sagði Óttar að Lárus hefði frá upphafi rannsóknar lagt áherslu á að hann hefði ávallt í störfum sínum hjá Glitni hagað þeim þannig að það þjónaði hagsmunum bankans. Þá gagnrýndi hann að ekki hefðu verið rannsakaðar hugsanlegar afleiðingar fyrir Glitni ef lánveitingin hefði ekki átt sér stað. Það hefði leitt til greiðsluþrots Milestone sem aftur hefði hæglega getað orðið Glitni að falli. „Ástæða þess að Glitnir hjálpar Milestone er að hagsmunir bankans og félagsins voru spyrtir saman.“

Þetta sagði Óttar sýna að Lárus hefði borið hagsmuni bankans fyrir brjósti, og óskiljanlegt væri að rannsóknin hefði ekki beinst að því. „Ég fullyrði að ekki finnist dæmi í dómaframkvæmd þar sem einstaklingur hafi verið sakfelldur fyrir umboðssvik þar sem um hafi verið að ræða tilraun til að tryggja hagsmuni umbjóðanda síns.“

Rannsakendum hefði verið svo mikið í mun að sýna fram á sekt að þeim hefði yfirsést mikilvæg atriði í rannsókninni eða vísvitandi horft framhjá þeim. „Með rannsókn máls er lagður grunnur að ákæru. Ef grunnurinn brestur hrynur allt það sem á honum stendur,“ sagði Óttar og að dómur í sakamáli yrði ekki kveðinn upp ef undirliggjandi rannsókn væri ónýt.

Umfjöllun mbl.is um málflutninginn heldur áfram síðar í dag.

mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert