Skugginn verður alltaf yfir málinu

Héraðsdómur Reykjavíkur mun á næstunni úrskurða um hvort tveir lögreglufulltrúar, sem störfuðu hjá sérstökum saksóknara hafi með því að bjóða og veita þrotabúi Milestone þjónustu sína, samhliða rannsókn sem tengdist félaginu, eyðilagt málatilbúnað embættisins. Og hvernig sem fer mun skuggi þessara tveggja manna falla á málið.

Athygli vakti að Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, mætti í héraðsdóm í morgun og fylgdist með munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu í máli á hendur honum og Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans.

Það er ekki síst athyglisvert fyrir þær sakir að Lárusi mátti vera ljóst að fulltrúar allra fjölmiðla væru á staðnum, með tilheyrandi ágangi. Lárus lét hins vegar spurningar fjölmiðlamanna sem vind um eyru þjóta og lét í raun eins og hann sæi ekki myndavélarnar.

En það verður eiginlega að hrósa Lárusi fyrir að mæta og fylgjast með þrátt fyrir fjölmiðlafár. Mikið er undir og hagsmunir hans gríðarlegir. Brotin sem Lárus er ákærður fyrir varða allt að sex ára fangelsi.

Fengu þrjátíu milljónir aukalega

Frávísunarkrafan í málinu er sprottinn upp úr hreint ótrúlegum atvikum innan embættis sérstaks saksóknara. Tveir lögreglufulltrúar sem störfuðu við embættið og höfðu veg og vanda af rannsókninni á málinu gegn þeim Lárusi og Guðmundi ákváðu að bjóða þrotabúi Milestone þjónustu sína.

Skiptastjóri þrotabúsins tók tilboðinu og gerði samning við fyrirtæki lögreglufulltrúanna. Þeir létu af störfum hjá sérstökum saksóknara en gerðu þess í stað verktakasamning við embættið. Þeir unnu því bæði fyrir sérstakan saksóknara og þrotabú Milestone.

Skrifað var undir samninginn 27. september 2011 og gilti hann til 22. nóvember sama árs. Þeir fengu um þrjátíu milljónir króna fyrir vinnu sína, létu af hendi trúnaðarupplýsingar úr rannsóknum sérstaks saksóknara um Milestone, en einnig úr rannsókninni um Lárus og Guðmund.

Samstarfsmenn vissu ekkert

Saksóknari í málinu gegn Lárusi og Guðmundi upplýsti í dag, að ekki hefði verið vitað um þetta hliðarverkefni lögreglufulltrúanna fyrr en í mars sl. og í apríl hefði verið vitað í hverju vinnan fólst fyrir þrotabúið. Verjendur voru eitt spurningarmerki, enda hafði saksóknarinn áður sagt að lögreglufulltrúarnir hefðu verið í daglegum samskiptum við aðra starfsmenn sérstaks saksóknara á þessu tímabili. Þeim þótti ótrúlegt að lögreglufulltrúunum hefði tekist að leyna þessu fyrir samstarfsmönnum sínum.

Sérstakur saksóknari kærði mennina til ríkissaksóknara vegna brota þeirra í starfi, eða meintra brota. Þar er mál þeirra í skoðun.

Að öllu þessu virtu verður að teljast eðlilegt að verjendur krefjist þess að málinu sé vísað frá dómi. Burtséð frá því hvort lögreglufulltrúarnir tveir hafi haft einhver óeðlileg afskipti af rannsókninni sem þeir voru yfir rýrir það trúverðugleika hennar óneitanlega. En það er dómara að kveða upp úr um það.

Lagaskilyrði ekki fyrir hendi?

Saksóknarinn í málinu sagðist ekki vilja bera blak af umræddum mönnum, þeir hefðu gerst sekir um starfsóhollustu og hegðun þeirra ekki til eftirbreytni. Engu að síður sé niðurstaðan, eftir yfirferð innanhúss, að grundvöllur sakamálsins standist óhaggaður. Þó svo að umræddir menn hafi brotið af sér í starfi þá tengist það einfaldlega ekki málinu gegn Lárusi og Guðmundi.

Honum varð tíðrætt um það að gögnin töluðu sínu máli og þó svo einhverjir annmarkar væru á málinu dygði þeir ekki til þess að vísa málinu frá. Enda gætu verjendur spurt umrædda lögreglufulltrúa spjörunum úr við aðalmeðferðina. Hann sagði að störfin fyrir þrotabúið hefðu verið óheppileg og ólögleg en ekkert benti til þess að rannsóknin hefði verið ófullnægjandi og engin lagaskilyrði til að vísa málinu frá.

Fleiri mál sama marki brennd?

Eins og svo oft er með mál sem rata fyrir dómstóla þá er erfitt að spá fyrir um hvernig niðurstaðan verður. Ekki þarf annað en að líta til þess hversu oft Hæstiréttur snýr við niðurstöðu héraðsdóms til að sjá það. Í þessu máli er það fyrst héraðsdómara að meta hvort störf lögreglufulltrúanna tveggja, og afhending á trúnaðarupplýsingum um rannsóknina, sé svo mikill annmarki á málinu að vísa beri því frá dómi.

Ef málinu verður vísað frá er svo aftur spurning hvort fleiri mál þurfi ekki að endurskoða vegna aðkomu umræddra lögreglufulltrúa.

mbl.is
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Lárus Welding í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Andri Karl
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert