„Sannarlega var hart og óvægið gengið á þingmenn Vinstri grænna af formönnum ríkisstjórnarflokkanna um að styðja málið m.a. undir atkvæðagreiðslunni sjálfri og beitti þar formaður SF vinnubrögðum sem hafa áður verið umfjöllunarefni,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á vefritinu Smugunni í dag þar sem hann hafnar því að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið hafi verið hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Jón segir að eftir þingkosningarnar hafi þingmönnum VG verið tilkynnt að það væri afdráttarlaus krafa Samfylkingarinnar að flokkarnir stæðu saman að því að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Honum hafi einnig þótt nokkrir þingmenn VG áfram um að það væri gert. Um málið hafi verið fullkominn ágreiningur í þingflokki VG sem lauk með því að hann og nokkrir aðrir þingmenn VG höfnuðu því að standa að slíkri umsókn og lögðu fram bókun þess efnis.
„Þar með var fullljóst að ekki var meirihluti fyrir myndun ríkisstjórnar VG og SF ef ESB-málið ætti að ráða þar úrslitum. Síðar fundu menn þá leið að setja í samstarfsyfirlýsinguna að utanríkisráðherra myndi leggja fram á Alþingi tillögu þessa efnis og réðist af meirihluta Alþingis hvernig tillögunni reiddi af,“ segir Jón og rifjar upp orðalagið í samstarfslýsingunni þar sem segi að utanríkisráðherra muni „leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi“.
Stjórnarslit vegna ESB sjálfstæð ákvörðun
Fyrir vikið hafi ekki verið um um ríkisstjórnarmál að ræða. Öllum hafi verið kunnugt um andstöðu Jóns og fleiri við umsókn um inngöngu í Evrópusambandið og þar á meðal í ríkisstjórn þar sem hann hefði látið bóka andstöðu við tillögu utanríkisráðherra. „Þegar nú er sagt að ríkisstjórnarflokkarnir hafi samþykkt og sótt um aðild er það fullkomlega rangt,“ segir hann enda hafi umsóknin verið samþykkt af þingmönnum úr öllum flokkum.
Ríkisstjórnarsamstarfið hafi því ekki hvílt á tillögunni enda hafi hún ekki notið meirihlutastuðnings ef aðeins kæmu til atkvæði stjórnarflokkanna. Jón segir að fyrir vikið sé röngu tré veifað þegar þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn og stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið í VG haldi því fram að afturköllun umsóknarinnar sé brot á samstarfsyfirlýsingu flokkanna og jafngildi stjórnarslitum. „Stjórnarslit vegna ESB-málsins er sjálfstæð ákvörðun,“ segir Jón ennfremur.