„Málgagn sem talar inn á miðjuna“

Morgunblaðið/Ómar

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna hefur opnað sérstaka vefsíðu í tengslum við starfsemi félagsins þar sem fyrirhugað er að halda úti skrifum um málefni líðandi stundar „en mörg stór mál er varða þjóðfélagsskipulagið eru framundan. Vefurinn verður málgagn sem talar inn á miðjuna og verður gætt þess að mál verði tekin fyrir á málefnalegum nótum“, eins og segir á síðunni sem er á slóðinni www.ffj.is.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá FFJ að það vilji „eiga málefnalega samræðu um framtíðarsýn og samfélagsskipulagið - með tvíþættri áherslu frjálslyndra jafnaðarmanna á jöfnuð, velferð og lífsgæði annars vegar og verðmætasköpun byggða á öflugu atvinnulífi, athafnafrelsi og alþjóðaviðskiptum hins vegar“.

Félagið var upphaflega stofnað árið 1986 þegar Bandalag jafnaðarmanna undir forystu Vilmundar Gylfasonar hafi gengið til liðs við Alþýðuflokkinn. Félagið hafi síðan fengið aðild að Samfylkingunni „enda mikilvægt að efla tengslin við alþjóðahreyfingu jafnaðarmanna – ekki síst systurhreyfingar á hinum Norðurlöndunum“.

Meðal þeirra sem skrifa munu á vefsíðuna eru Runólfur Ágústsson lögmaður, Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkur, Ágúst Ólafur Ágústsson, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, Magnús Orri Schram alþingismaður, Vilhjálmur Þorsteinsson athafnamaður, Dagbjört Hákonardóttir lögfræðingur, Andrés Jónsson almannatengill, Ari Skúlason hagfræðingur og Arnar Guðmundsson, verkefnastjóri og formaður FFJ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert