Fulltrúar í nefndinni ekki nógu upplýstir

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Telji Þorsteinn Pálsson að ríkisstjórnin og utanríkisráðherra sé í þeirri stöðu að ekki sé unnt að halda áfram ESB-viðræðunum á það enn frekar við um nefndina þar sem hann situr. Ætlar hann að sitja þar áfram ef viðræðurnar eru strandaðar vegna ágreinings innan ríkisstjórnar?“ spyr Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðunni Evrópuvaktin.is. Þessu hljóti Þorsteinn að þurfa að svara og helst opinberlega.

Tilefni skrifa hans eru þau ummæli Þorsteins, sem sæti á í samninganefnd Íslands vegna umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu, í Fréttablaðinu í dag að hafi ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs gert fyrirvara við samningsafstöðu Íslands í efnahags- og peningamálum, eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur upplýst, þýði það í raun að þeir hafi stöðvað viðræðurnar við sambandið, en í afstöðunni segir meðal annars að Ísland stefni að því að taka evruna upp sem gjaldmiðil sinn sem allra fyrst.

Björn segir að skrif Þorsteins bendi ennfremur til þess að upplýsingamiðlun Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, til þeirra sem sitja í samninganefnd Íslands sé ábótavant. „Hingað til hefur þó verið talið að þetta ætti við um miðlun upplýsinga til almennings. Nú kemur í ljós að fulltrúar í viðræðunefnd Össurar fá ekki einu sinni að vita um stöðu mála og þurfa að hrópa á upplýsingar á opinberum vettvangi,“ segir Björn.

Grein Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert