„Málið með ræðu Eastwoods var að hún fylgdi ekki formúlunni. Hann gerði annað en ætlast var til. Verkefni hans var að tala upp Mitt Romney. Það gerði hann ekki heldur sagði að Obama hefði brugðist og því væri rétt að skipta um mann. Hann sagði stjórnmálamenn í vinnu hjá fólkinu sem gleymdu því þó gjarnan nema þegar þeir væru að snapa atkvæði á fjögurra ára fresti.“
Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á facebooksíðu sinni í dag um ræðu kvikmyndaleikarans og leikstjórans Clints Eastwoods á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Tampa í Flórída. Ræðan hefur vakið mikið umtal en þar talaði hann meðal annars við auðan stól sem átti að tákna Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Stefanía segir að starfsfólk Romneys hafi haft áhyggjur af því að eftir flokksþingið myndu fleiri tala um Eastwood en ræðu Romneys sem einmitt hafi orðið raunin. „Þess vegna voru þeir óánægðir með ræðuna.“
Hún segir að stuðningsmenn Obama hafi hins vegar vitað að útspilið með auða stólinn kynni að reynst Obama skeinuhætt og því hafi þeir strax brugðust við með skilaboðunum „This chair is taken“ á Twitter með mynd af Obama í sæti forsetans á ríkisstjórnarfundi.
„Nokkur hroki felst í þessum skilaboðum vegna þess að það er kjósenda að ákveða hver fær stólinn. Annað er að Obama hefur verið gagnrýndur, og þá líka af frjálslyndum, fyrir að hafa verið veikur leiðtogi (lack of leadership). Auði stóllinn talaði inn í þá gagnrýni.“