Margrét Tryggvadóttir hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf þar sem hún óskar eftir því að nefndin fái á fund til sín ríkisendurskoðanda til að ræða fjárframlög fyrirtækja, sem teljast mega tengd, til stjórnmálaflokka.
Margrét vísar til bloggfærslu frá því í gær þar sem bent sé á að fyrirtæki sem teljist tengd hafi styrkt að minnsta kosti einn stjórnmálaflokk um upphæðir sem séu hærri en heimilað er samkvæmt lögum, en í lögum um fjármál stjórnmálaflokka skuli framlög tengdra fyrirtækja teljast saman.
Í tölvubréfi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir Margrét: „Ég óska eftir því að ríkisendurskoðun geri grein fyrir því með hvaða hætti fylgst er með tengslum styrkveitenda og til hvaða ráða er gripið þiggi stjórnmálasamtök styrki sem þeim er samkvæmt lögum óheimilt að þiggja.“