Á föstudag voru 100 ár liðin frá vígslu fyrstu brúarinnar yfir Ytri-Rangá, en brúin var vígð 31. ágúst 1912 af Hannesi Hafstein, ráðherra Íslands, að viðstöddu gríðarlegu fjölmenni.
Í tilefni tímamótanna var afhjúpað skilti þar sem brúin stóð þar sem hennar var minnst í máli og myndum og síðan boðið til kaffisamsætis í Handverkshúsinu Heklu.
Brúin hafði mikið um framþróun Rangárvallasýslu að segja á sínum tíma, en brúin stóð í hálfa öld þegar önnur leysti hana af hólmi og voru tveir hlutar hennar fluttir á aðra staði og stendur annar hluti hennar enn yfir Kálfá í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Það var Ágúst Sæmundsson á Hellu sem afhjúpaði skiltið, en Ágúst starfaði í 33 ár sem brúarsmiður og tók meðal annars þátt í því að byggja brúna sem nú stendur yfir Ytri-Rangá og í því að rífa gömlu brúna. Um 50 manns tóku þátt í athöfninni í nokkurri rigningu, en þó ekki jafnmikilli og fyrir 100 árum þegar var slagveðursrigning eins og þær verða mestar á Suðurlandi, samkvæmt upplýsingum úr dagblöðum árið 1912.