Fyrirvararnir voru skýrir

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að skýrir fyrirvarar sem hann hafi gert við ESB-aðildina á fundum ríkisstjórnarinnar hafi verið settir munnlega fram í júlí og væntanlega skráðir í fundargerð og síðan aftur í ágúst og þá sérstaklega eftir því gengið að þeir yrðu færðir til bókar. Þetta muni allir geta staðfest. Hann blæs jafnframt á ásakanir um hræsni í Evrópumálum.

Ögmundur segir að fyrirvarar sínir hafi gengið út á Evruna, afnám gjaldeyrishafta og jafnframt aðkomu Íslands að gjaldeyrissamstarfi. „Þá hef ég að sjálfsögðu margoft hamrað á þeirri afstöðu Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs að við gerum fyrirvara við allt þetta ferli,“ segir Ögmundur. „Tilefni þess að ég tók málið upp að nýju núna voru svikabrigslaskrif Þorsteins Pálssonar, þar sem hann hélt því fram að eitt væri sagt innan veggja Stjórnarráðsins og annað utandyra. Við því vil ég ekki gangast enda ósannindi.“

Neitar ásökunum um hræsni

Vigdís Hauksdóttir spurði í dag í facebook-færslu, hvort að afstaða Ögmundar bæri ekki vott um hræsni, þar sem hann hefði sagt að þjóðin hefði rétt á því að vera spurð hvort hún vildi inn í eldhafið, en hefði jafnframt greitt atkvæði gegn þingsályktunartillögu sinni fyrr í vor.

Í þeirri ályktun sagði: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins,“ en hefði tillagan verið samþykkt hefði atkvæðagreiðslan farið fram samhliða kosningu um tillögur stjórnlagaráðs. Tillagan var felld með 34 atkvæðum gegn 25.

Ögmundur þverneitar ásökunum Vigdísar um hræsni og segir að hann vilji skapa breiða samstöðu á Alþingi um lyktir í þessu máli. „Meginmarkmiðið hlýtur að vera að ná árangri í málinu og breiðri samstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki slá fram tillögu sem allir vita að ekki gengur upp. Það er engin hræsni í því fólgin að styðja ekki tillögu sem var sjálfdauð. Margir töldu þannig að fráleitt væri að blanda þessari tillögu saman við forsetakosningar eða kosningu um tillögur til Stjórnlagaráðs. Mér er fullkunnugt um gagnrýni á tillögu Vigdísar í öllum flokkum. Nú vill það brenna við að stjórnarandstöðuþingmenn sæti færis til rugga bátum. Mér finnst þetta stærra mál en svo að það verði knúið fram með slíkum hætti. Ég hef viljað að þingmenn stjórnarmeirihlutans og reyndar þingsins alls sameinist um að fara með málið til þjóðarinnar. Að því hef ég unnið og reynt að færa rök fyrir. Ég hef hins vegar ekki viljað láta stjórnast af því hvað einstökum stjórnarandstöðuþingmönnum hentar að setja fram hverju sinni.“

Ögmundur segist jafnframt hafa verið ósammála tillögu Vigdísar Hauksdóttur. „Af þessu tilefni vil ég jafnframt segja að ég er ekki sammála þeirri spurningu sem Vigdís setti fram um ferlið sem slíkt. Það þarf að spyrja um ESB aðild.  Ég væri því fylgjandi að beina svofelldri spurningu til þjóðarinnar: „Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þegar liggja fyrir?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert