Stíflan við Sporðöldulón er orðin fimmtán metra há, sem er helmingurinn af því sem koma skal en stíflan er hönnuð 30 metra há. Vinna við virkjunina gengur vel. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Sporðöldulón verður alls um sjö ferkílómetrar að flatarmáli, en með stíflunni verða Köldukvísl og Tungnaá stíflaðar og vatninu veitt til Búðarhálsvirkjunar sem er í smíðum. Aðveitugöng að stöðvarhúsinu fara gegnum Búðarhálsinn og verða um fjögurra kílómetra löng.
Áætlað er að Búðarhálsvirkjun verði komin í rekstur fyrir árslok 2013 en áætlað afl virkjunarinnar er um 95 MW og orkugeta verður allt að 585 GWst á ári. Virkjunin er sú sjötta á Þjórsár- og Tungnaársvæði, en fyrir eru þar Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sultartangavirkjun og Vatnsfellsvirkjun.