Þótt Snæfellsjökull hopi ár frá ári hefur ekki dregið úr skipulögðum ferðum á jökulinn og raunar þvert á móti, því sjaldan hafa jöklaferðir verið farnar á Snæfellsnesi svo lengi fram á sumar eins og í ár.
Jöklaferðir eins lengi og færðin leyfir
Líkt og mbl.is hefur sagt frá í vikunni er Snæfellsjökull sá íslenskra jökla sem líkur benda til að hverfi fyrstur, en hann hefur minnkað um helming á einni öld og ef fram heldur sem horfir gæti hann verið horfinn með öllu árið 2050. Enn sem komið er hefur þessi þróun þó ekki haft áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu.
Snjófell á Snæfellsnesi hefur um árabil boðið upp á ferðir á jökulinn, bæði á vélsleðum og snjótroðurum. „Þetta hefur verið mjög svipað hjá okkur undanfarin ár,“ segir Alexandra Berg Rúnarsdóttir hjá Snjófelli. Fyrstu ferðirnar séu yfirleitt farnar á jökulinn um páska, síðan sé hlé fram að vori en síðan farið daglega frá maí og eins lengi og færðin býður fram eftir sumri.
100 manns á Jökulinn daglega í sumar
Síðustu ferðir sumarsins hafa yfirleitt verið farnar á jökulinn undir lok júlí, en eftir það er hann yfirleitt orðinn of sprunginn til að öruggt sé talið að fara með óvana. Nú í sumar ber hins vegar annað við. „Við erum enn að fara jöklaferðir núna því það snjóaði svo vel á Jökulinn í vetur að hann var þvílíkt flottur í byrjun sumars og búið að vera rosalega flott færi á hann. Þetta hefur gert okkur kleift að halda áfram með ferðirnar þótt komið sé fram í lok ágúst,“ segir Alexandra.
Hætt var að bjóða upp á vélsleðaferðir eftir verslunarmannahelgina, vegna möguleika á undirliggjandi sprungum, en snjótroðarinn fer enn daglegar ferðir með alsæla ferðamenn. Alexandra segir að mikil ásókn hafi verið á Snæfellsjökul í sumar og yfirleitt sé fullt í ferðirnar. 20 manns komast í bílinn og í sumar hafi verið farið í fjórar ferðir á dag auk kvöldferða. Í kringum 100 manns fara því á Snæfellsjökul á degi hverjum og ferðirnar vekja mikla lukku.
„Þetta eru aðallega útlendingar sem fara með okkur en Íslendingarnir koma samt líka, til dæmis þegar þeir fá vini eða ættingja frá útlöndum og fara með þeim í svona ferðir. Það er ofsalega mikil aðsókn á Snæfellsnesið almennt og að fara þarna upp er mjög sérstakt. Útsýnið er svo flott og við höfum alveg heyrt það frá þeim Íslendingum sem fara þarna upp að þetta gefi nýja sýn á landið.“
Tindurinn alltaf ber síðla sumars
Oddur Haraldsson, jöklaleiðsögumaður hjá Snjófelli, þekkir Snæfellsjökul eins og lófann á sér enda hefur hann farið tugi ferða þangað upp undanfarin ár. Hann segir að fyrir tveimur árum hafi þurft að hætta að fara með ferðamenn á Jökulinn strax 10. júlí. Ferðamannatímabilið á jöklinum í sumar er því rúmum einum og hálfum mánuði lengra.
„Það sem munar aðallega um í sumar er að það hefur ekki verið nein rigning. Sólin er þannig séð ekki svo slæm en rigningin hraðar bráðnuninni.“ Oddur segir að tindur Snæfellsjökuls verði alltaf ber síðla sumars og Þúfurnar svo nefndu svartar. Ástandið sé því ekki svo óvanalegt nú eins og rætt hafi verið.
Oddur segir að þótt alveg ljóst sé að Snæfellsjökull fari minnkandi þá sé hvarf hans ekki svo yfirvofandi enn að það ógni ferðaþjónustunni. Hann sér fram á að fara með fjölda ferðamanna á Jökullinn áður en yfir lýkur. „Ég held hann hverfi ekkert alveg á næstu árum, mín tilfinning er allavega sú að Jökullinn muni lifa mig.“