„Það hvernig flokksforystan hamast nú á Ögmundi með allskonar pótintátum lýsir betur en flest sem gerst hefur einlægum vilja Steingríms til að kljúfa flokkinn,“ segir Bjarni Harðarson, bóksali og varabæjarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Árborg, á heimasíðu sinni þar sem hann sakar forystu VG og ekki síst formann flokksins, Steingrím J. Sigfússon, um að vilja kljúfa hann.
Bjarni segir það smám saman renna upp fyrir fólki að það sé ekki grasrót VG eða svonefnd kattadeild sem vilji kljúfa flokkinn heldur forystan. Hann segir ræðu Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns VG, á flokksþingi flokksins í lok ágústmánaðar, þar sem hún gagnrýndi þá flokksmenn harðlega sem vildu hætta viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, og viðbrögð Steingríms og fleiri við broti Ögmundar Jónassonar á jafnréttislögum færa heim sanninn um það.
„Með Ögmund innanborðs eru yfirráð Steingríms innan flokksins ekki eins altæk og hann telur nauðsynlegt. Um hitt má svo deila hversu skynsamlegt það er hjá Ögmundi, Jóni, Guðfríði Lilju og fleirum að hanga eins og hundar á roði í flokki sem er orðinn er lítið meira en annexía frá Samfylkingunni,“ segir Bjarni og vísar þar auk Ögmundar til Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Jóns Bjarnasonar, þingmanna VG.