Þingmaður Framsóknarflokksins segir að nú sé fundið að því að þjóðkirkjan opni upplýsingavef um þjóðaratkvæðagreiðsluna um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá en sömu aðilar hafi hins vegar ekki gert neinar athugasemdir við það að Evrópusambandið opnaði upplýsingaskrifstofu um Evrópumálin hér á landi og vísar þar til Evrópustofu sem opnaði í byrjun ársins.
Þetta kemur fram á facebooksíðu Ásmundar Einars Daðasonar en þar vísar hann til fréttar á fréttavefnum Vísir.is í dag þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, er spurð út í upplýsingavefinn og hún meðal annars spurð hvort þar verði fluttur áróður. Aukakirkjuþing sem fram fór í gær hvatti til þess að ákvæði um þjóðkirkju yrði áfram í stjórnarskránni.
„Nú ráðast menn á þjóðkirkjuna fyrir að opna upplýsingavef vegna þjóðaratkvæðagreiðslu. Hinir sömu sjá ekkert athugavert við að ESB eyði hundruðum milljóna til rekstrar auglýsingastofu. Er það mikilvægasta verkefnið núna að ráðast að þjóðkirkjunni? Breytingar á stjórnarskrá á að vinna með víðtæku samráði en það hefur ríkisstjórninni því miður mistekist,“ segir Ásmundur Einar.