Fjórir þingmenn sem ætluðu að fara til Þórshafnar í Færeyjum í dag til þess að taka þátt í fundi Vestnorræna ráðsins enduðu í Haugasundi í Noregi. Skömmu fyrir lendingu í Færeyjum var flugvellinum þar lokað og því þurfti vélin að lenda í Haugasundi.
Þingmennirnir sem um ræðir eru þau Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG, Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingu, og Björgvin G. Sigurðsson, Samfylkingu. Von er á Árna Johnsen, Sjálfstæðisflokki, á fundinn á morgun þannig að útlit er fyrir að allur hópurinn lendi um svipað leyti í Færeyjum. Sex þingmenn skipa Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins en Þór Saari átti ekki heimangengt. Björgvin er varamaður Sigmundar Ernis Rúnarssonar.
Sigurður Ingi segir að Flugfélag Íslands hafi útvegað hópnum, bæði íslensku og grænlensku þingmönnunum, auk annarra farþega, gistingu í Haugasundi og ekki væsi um fólkið. Einungis fimm mínútur voru í lendingu þegar tilkynnt var að ekki væri hægt að lenda í Þórshöfn vegna veðurs.
Hann segir að væntanlega verði hægt að lenda í Færeyjum á morgun en um ársfund vestnorræna þingmannaráðsins er að ræða. Fundinum lýkur á föstudag en hann átti að hefjast í dag.