Ekki hægt að færa menn til fundar í böndum

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG.
Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hér er greinilega djúpur misskilningur á ferð,“ segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í svari við bréfi Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, til forseta Alþingis þar sem Þór gagnrýndi harðlega að undirhópur atvinnuveganefndar hefði fundað í ágústmánuði um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu án þess að Þór sem fulltrúi Hreyfingarinnar væri boðaður á þá fundi.

„Trúnaðarmannahópi þingflokka á Alþingi var falið að vinna að tillögum að breytingum á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða samkvæmt samkomulagi þar um við lok síðasta þings. Á fundi hópsins í sumarbyrjun lýsti Þór Saari því yfir að hann myndi ekki taka þátt í störfum hópsins enda teldi hann hópinn ekki hafa þinglegt umboð til að starfa,“ segir Björn Valur.

Björn Valur segir að ástæðan fyrir því að Þór hafi ekki verið boðaður á fundi hópsins hafi því verið sú að hann hafi beðist undan því að taka þátt í starfi hans. „Það hefði þó að mínu mati verið fengur í því að hafa Þór Saari eða annan fulltrúa Hreyfingarinnar í þeirri vinnu sem hópurinn hefur verið að sinna. Það er samt tæpast við hæfi að færa menn til fundar í böndum og gegn þeirra vilja þó umræðuefni kunni að vera mikilvæg.“

Þessu mótmælir Þór og segir yfirlýsingu Björn Vals fráleita enda sé um að ræða mál sem Hreyfingin hafi haft mjög sterka skoðun á og meðal annars lagt fram eigin frumvörp um. „Hvet Björn Val til að draga þessa staðhæfingu sína til baka, enda ósönn,“ segir hann í svari við bréfi Björns Vals.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert