Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir fjölmiðla hafa lesið yfirlýsingu Björns Vals Gíslasonar, þingflokksformanns Vinstri grænna, frá því fyrr í dag rangt. Hann sé í raun að gefa innanríkisráðherra gálgafrest en kalla eftir afsögn umhverfisráðherra og forsætisráðherra.
Eins og mbl.is greindi frá í dag skrifaði Björn Valur á vefsvæði sitt í dag, að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefði nokkra möguleika í stöðunni eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði brotið jafnréttislög.
Björn Valur segir að ef Ögmundur hafi frumkvæði að því að leita sátta í málinu jafngildi það viðurkenningu hans á því að hafa gengið gegn lögum við skipan í embættið. Fari málið til dómstóla og kveðinn verði upp sá dómur að ráðherra hafi gert rétt með skipan í embættið sé málið dautt.
„Ef dómur verður á annan veg verður ráðherra að mínu mati að víkja úr embætti. Það sama á við ef ráðherra leitar hvorki sátta né til dómstóla. Þetta á að mínu mati almennt við um mál af þessu tagi, óháð því hver ráðherrann er,“ skrifaði Björn Valur.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir á vefsvæði sínu að fjölmiðlar hafi ekki áttað sig á stóru fréttinni í málinu, þrátt fyrir að Björn Valur hafi vart getað sett það skýrar fram.
„Tveir ráðherrar í þessari stjórn hafa verið dæmdir af dómstólum fyrir að fara ekki að lögum. Svandís Svavarsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir.
Skilaboð þingmannsins eru skýr. Hann fer fram á afsögn Svandísar og Jóhönnu en gefur Ögmundi gálgafrest.
Það verður fróðlegt að heyra viðbrögð ráðherranna,“ segir Guðlaugur Þór.