Umboðsmanni barna bárust á síðasta ári nokkur erindi vegna vímuefnavanda barna. Af þeim að dæma virtist sem fullorðnir fái í sumum tilvikum betri þjónustu en börn, þó svo að um svipuð vandamál sé að ræða.
Í ársskýrslu umboðsmanns barna sem birt var í dag kemur fram að umboðsmaður hafi miklar áhyggjur af skorti á úrræðum fyrir börn sem neyta vímuefna og fjölskyldur þeirra. Hann telur brýnt að brugðist sé við vímuefnaneyslu barna með festu og fullnægjandi hætti.
Meðal annars hafi komið í ljós að reglulega kæmi upp sú staða að neyðarvistun Stuðla gæti ekki tekið við fleiri börnum og dæmi eru um að börn í vanda áttu í engin hús að venda. „Óásættanlegt er að vísa þurfi barni út á götu og telur umboðsmaður barna því brýnt að brugðist verði við þessu sem fyrst.“
Þá segir að umboðsmaður hafi áhyggjur af því að aðgerðum sem Barnaverndarstofa lagði til við velferðarráðuneytið verði ekki hrint í framkvæmd vegna niðurskurðar.