Hlúð að sjúkum á Skriðuklaustri

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur og lektor í fornleifafræði við Háskóla …
Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur og lektor í fornleifafræði við Háskóla Íslands við uppgröftin að Skriðuklaustri. mbl.is/Helgi Bjarnason

Tíu ára fornleifarannsókn á rústum Skriðuklausturs í Fljótsdal er lokið. Niðurstöðurnar kollvarpa fyrirliggjandi hugmyndum um starfsemi Skriðuklausturs, sem er fyrsta íslenska klaustrið sem grafið er upp í heild sinni, og gefa nýja sýn á íslenskt klausturlíf. 

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, sem stýrir uppgreftrinum, segir í viðtali við Austurgluggann, að hún hafi átt von á því að uppgröfturinn myndi bæta við þekkingu á klausturlífinu en ekki að hann myndi breyta sýn okkar á lífinu í klaustrinu.

Til þessa hefur verið talið að klaustrin hérlendis hefðu verið ólík evrópskum klaustrum hvað varðaði byggingarlag og starfsemi en á Skriðuklaustri kom allt annað í ljós. „Þetta er hefðbundið klaustur. Engin tvö klaustur eru eins en þau byggjast öll á sama grunni,“ segir Steinunn við Austurgluggann. 

Þá hafði því svo gott sem verið hafnað að íslensku klaustrin hefðu sinnt samfélagsþjónustu því fyrir því vantaði einfaldlega heimildir. Á Skriðuklaustri virðist hafa verið hlúð að sjúkum. 

„Það er augljóst að þarna var rekinn spítali og skýrar er ekki hægt að koma að samfélagsþjónustu. Ég vil meira að segja ganga svo langt að segja að líkn og hjúkrun hafi verið aðalstarfið í klaustrinu. Það hafa yfir 150 langveikir sjúklingar verið jarðaðir í kirkjugarðinum á tæplega 60 árum þannig að þetta hefur sett svip á starfsemina, fjáröflun og fleira.“

Hjúkrunarstarfsemin rennir enn frekari stoðum um að menn hafi sótt fyrirmyndina að klaustrinu til útlanda. „Öll klaustur í heiminum lögðu áherslu á samfélagsþjónustu, skóla, hjúkrun og fleira. Af hverju ættum við að vera eitthvað öðruvísi? Hverjir aðrir gátu sinnt þessu á miðöldum,“ spyr Steinunn. 

Sjá frétt Austurgluggans í heild hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert