Makríldeilan enn í hnút

Makríllinn er farinn a skipta miklu fyrir þjóðarbú Íslendinga.
Makríllinn er farinn a skipta miklu fyrir þjóðarbú Íslendinga.

Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra fór fyrir sendinefnd Íslands í viðræðum í London um makríldeiluna í dag. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, var fulltrúi sambandsins. Ekkert þokaðist í deilunni, að sögn Steingríms en málið verður tekið upp á ný á fundi strandríkja í október.  

Heildarveiði hefur verið umfram ráðgjöf vísindamanna en makríll er nú farinn að ganga í miklum mæli í íslenska lögsögu og jafnvel hrygna hér við land. Íslendingar krefjast þess að fá að halda hlutdeild sinni síðustu ár í heildaraflanum, hún hefur verið um 16%.

 „Við erum tilbúnir til að sýna ákveðinn sveigjanleika gegn ríflegum aðgangi að lögsögu annarra þjóða á móti í þágu þess að ná utan um þetta mál," segir Steingrímur.  „Það er viðurkennt að fyrir okkur væri ákveðið verðmæti fólgið í því að hafa möguleika á að sækja eitthvað af makrílnum seinna á sumrinu eða haustinu inn í lögsögu hinna ríkjanna. Visst öryggi væri í slíkum aðgangi og auk þess er fiskurinn þá verðmætari.

 Og auðvitað er það verðmætt í sjálfu sér að ná utan um sjálfbæra fiskveiðistjórnun á tegundinni. Við ætlum okkur myndarlegan framtíðarhlut í þessum veiðum og því er það áhyggjuefni fyrir okkur að ekki skuli takast að færa heildarveiðina í átt að ráðgjöf. En þá yrðu allir að draga úr veiðum."

 Steingrímur sagðist skilja vel að hiti væri í mönnum á byggðarlögum í Skotlandi og á Írlandi þar sem makríllinn skipti miklu máli. En gagnrökin væru að fyrir Ísland og Færeyjar snerist málið ekki um örfáar byggðir heldur allt hagkerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert