Íbúar á Suðurlandi fundu fyrir óþægindum í öndunarfærum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Slím í hálsi, hósti, óþægindi í augum og nefrennsli var talsvert algengara hjá þeim sem voru búsettir á þessi landsvæði en samanburðarhópi.
Þetta eru niðurstöður rannsóknar, sem gerð var af hópi vísindamanna við Háskóla Íslands. Þær verða kynntar í dag, á árlegu þingi evrópskra sérfræðinga í öndunarsjúkdómum, European Respiratory Society, sem haldið er í Vín í Austurríki.
Í rannsókninni voru bornir saman tveir hópar. Annars vegar 1.148 einstaklingar sem búsettir voru á Suðurlandi og hins vegar 510 íbúar á Norðurlandi, þar sem áhrifa gossins gætti lítt.
Allir þátttakendurnir voru beðnir um að fylla út spurningalista þar sem spurt var um heilsufar þeirra undanfarið ár, en spurningalistana fékk fólkið í hendurnar hálfu ári eftir að gosi lauk.
Niðurstöðurnar voru að þeir sem bjuggu á Suðurlandi á þeim tíma sem Eyjafjallajökull gaus, fundu fyrir talsvert verri einkennum í öndunarfærum en samanburðarhópurinn. Algengara var að íbúar á Suðurlandi fundu oftar fyrir ýmsum einkennum frá öndunarfærum eins og t.d. slími í hálsi, nefrennsli, hósta og rennsli úr augum.
Einnig kom í ljós munur á milli fólks eftir því hversu nálægt fjallinu það bjó.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Hanne Krage Carlsen, sem fór fyrir rannsóknarteyminu, að eldgosið í Eyjafjallajökli hafi veitt vísindamönnum sjaldgæft tækifæri til að rannsaka áhrif eldgosa á heilsu fólks.
„Niðurstöður okkar benda til þess að búseta skammt frá eldgosi geti haft alvarleg áhrif á öndunarfæri fólks. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hver langtímaáhrifin séu, þá eru þetta mikilvægar upplýsingar fyrir heilbrigðiskerfið sem má búast við aukinni tíðni öndunarfærasjúkdóma,“ segir Carlsen.