Er makríllinn evrópskur?

Makríll.
Makríll.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunarinnar, Matís og Háskóla Íslands, ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum, hófu rannsóknir á makríl í Norður-Atlantshafi síðastliðið ár í samvinnu við nokkur útgerðarfyrirtæki (Hugin ehf., Síldarvinnsluna hf., Vinnslustöðina hf. og Framherja aps). Styrkur frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins undir verkefnisstjórn Matís ýtti verkefninu úr vör árið 2011 með verkefninu „Stofnerfðafræði makríls í Norður-Atlantshafi - er stofninn eingöngu evrópskur?“ og í kjölfarið árið 2012 fylgdu færeyski rannsóknasjóðurinn (Faroese Research Council) og norræni NORA-sjóðurinn með fjármögnun sem nær til desember 2014 undir verkefnisstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar (dr. Christophes Pampoulies). Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Hafró.

Um er að ræða þverfaglegt verkefni sem byggist á söfnun makrílsýna á mismunandi svæðum og tímabilum og úrvinnslu þeirra með tilliti til DNA-arfgerða, líffræðilegra upplýsinga, vinnslueiginleika o.fl. ásamt umhverfisgögnum. Áætlað er að verkefnið „Stock structure of Atlantic Mackerel“ sem kallast SAM varpi ljósi á uppruna makríls innan íslenskrar, færeyskrar og norskrar lögsögu. Jafnframt er stefnt á að greina stofngerð makríls í Norður-Atlantshafi, þ.e. fjölda stofneininga og hvort blöndun eigi sér stað milli ólíkra stofneininga á veiðislóð, bæði milli hugsanlegra ólíkra stofneininga innan Evrópu sem og milli Evrópu og N-Ameríku.

Makríll hefur fundist á íslenskum hafsvæðum í sífellt auknum mæli síðan árið 2006, en breytingar á útbreiðslu hans hafa fylgt breytingum á umhverfisaðstæðum í hafinu, m.a. hlýnun sjávar. Markmiðið er að verkefnið afli mikilvægra vísindagagna sem geta varpað frekara ljósi á breytingar á útbreiðslumynstri makríls í Norður-Atlantshafi.

SAM-verkefnið er unnið í nánu samstarfi við fiskiðnaðinn. Í verkefninu er byrjað á að þróa DNA-erfðamörk fyrir makríl. DNA-erfðamörkin eru notuð sem tæki til stofn- og upprunagreininga á makríl í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærum veiðum stofneininga og hjálpa til við að spá um breytingar á útbreiðslu makríls í framtíðinni. Notast verður við tvennskonar DNA-erfðamörk, annars vegar DNA erfðamörk undir vali og hins vegar hlutlaus erfðamörk ásamt líffræði- og umhverfisgögnum til að rannsaka fjölda stofneininga makríls í Norður-Atlantshafi og uppruna ólíkra stofneininga á veiðislóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert