Fjármögnuðu rekstur með yfirdráttarláni

Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Heilbrigðisstofnun Austurlands. Af vef Ríkisendurskoðunar

Af ellefu heilbrigðisstofnunum sem nefndar eru í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar voru sjö reknar með halla árið 2011 og þar af gripu fjórar til þess ráðs að taka yfirdráttarlán í banka til að fjármagna rekstur sinn. Að mati Ríkisendurskoðunar er verulegt áhyggjuefni hversu illa heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur gengið að halda rekstri sínum innan þess ramma sem Alþingi setur.

Vinna þarf á uppsöfnuðum halla Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) og tryggja að rekstur hennar rúmist innan fjárheimilda, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þá verður velferðarráðuneytið að sjá til þess að HSA og aðrar stofnanir sem undir það heyra fjármagni ekki rekstur sinn með yfirdráttarlánum, enda er slíkt með öllu óheimilt samkvæmt reglum.

Yfirdráttur HSA nam 82 milljónum

HSA varð til árið 1999 við sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Austurlandi. Í febrúar árið 2009 beindi Ríkisendurskoðun nokkrum ábendingum til HSA og heilbrigðisráðuneytis (nú velferðarráðuneyti). Ábendingarnar lutu m.a. að fjárreiðum HSA, undirbúningsvinnu vegna sameiningar heilbrigðisstofnana og stefnumörkun og árangursstjórnun HSA. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nú, rúmlega þremur árum síðar, hefur verið brugðist við flestum ábendinganna með þeim hætti að ekki þykir þörf á að árétta þær. Eftir stendur að stofnunin hefur verið rekin með halla undanfarin ár. Uppsafnaður halli nam 113 milljónum króna í lok síðasta árs og skammtímaskuldir 163 milljónum króna, þar af nam yfirdráttur á bankareikningum 82 milljónum króna.

Fram kemur að HSA er ekki eina heilbrigðisstofnunin á landsbyggðinni sem glímt hefur við rekstrarerfiðleika undanfarin ár. Af samtals ellefu stofnunum sem nefndar eru í skýrslunni voru sjö reknar með halla árið 2011 og þar af gripu fjórar til þess ráðs að taka yfirdráttarlán í banka til að fjármagna rekstur sinn. Að mati Ríkisendurskoðunar er verulegt áhyggjuefni hversu illa heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni hefur gengið að halda rekstri sínum innan þess ramma sem Alþingi setur.

Í skýrslunni er minnt á að samkvæmt reglum um framkvæmd fjárlaga er ríkisstofnunum óheimilt að efna til útgjalda umfram fjárheimildir. Ráðuneytum ber að hafa reglubundið eftirlit með útgjöldum stofnana sinna og grípa til aðgerða ef þau fara meira en 4% fram úr áætlun. Þá er stofnunum með öllu óheimilt að fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti á bankareikningi, samkvæmt reglum um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs.

Ríkisendurskoðun hvetur HSA til vinna á uppsöfnuðum halla sínum, gera upp skammtímaskuldir og sporna við frekari hallarekstri. Þá er velferðarráðuneytið hvatt til að efla eftirlit sitt með fjárreiðum stofnunarinnar og tryggja að rekstur hennar rúmist innan fjárheimilda.

Enn fremur minnir Ríkisendurskoðun á að stofnanir mega ekki fjármagna rekstur sinn með yfirdrætti á bankareikningi. Velferðarráðuneytinu ber að tryggja að HSA og aðrar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið virði þessa reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert