Fljúgandi smalar tóku bensín í Bjarkalundi

Flugvélin við Hótel Bjarkarlund.
Flugvélin við Hótel Bjarkarlund. Af Reykhólavefnum

Langt er síðan fjórhjólið byrjaði að veita hestinum samkeppni sem þarfasti þjónninn í smalamennsku en sjaldgæfara er að smalar séu á flugvélum. Það gerðist samt á sunnudag þegar Þórður Valdimarsson og Óli Öder komu í heimsókn á Stað í Reykhólasveit á fisflugvélinni TF 151. Þeir mættu einmitt þegar var verið að undirbúa smölun í eyjunum fyrir framan Stað og Árbæ og drifu sig með til aðstoðar. Smölunin í eyjunum er upphaf smalamennskutímans á Stað og Árbæ. Frá þessu segir á Reykhólavefnum.

 Farið var á tveimur hestum út í eyjar en Þórður og Óli svifu yfir, tóku statusinn og létu vita hvar kindur voru og hvar ekki.

 „Þetta var mikill sparnaður og skemmtileg tilbreytni í smölun, kindurnar tóku vélinni vel, enda ekki mikil hávaði af henni, og runnu létt heim“, segir Eiríkur Snæbjörnsson bóndi á Stað, í viðtali á Reykhólavefnum.

 Tveir hópar fundust sem vélin gat sameinað og þá tóku við hestar og hjól sem ráku féð heim.

 Þegar eyjarnar framan við Stað og Árbæ eru smalaðar er farið á fjöru, þar sem hægt er að fara um sjö kílómetra út í eyjar.

 „Þessi nýjung getur sparað mikinn tíma og sérstaklega í eftirleitum. Aldrei að vita nema svona vél kíki við aftur,“ segir Eiríkur á Stað.

 Og ekki var vandamál með bensínið á vélina. Þeir félagar lentu einfaldlega á planinu við Hótel Bjarkalund og tóku bensín eins og sjá má á myndum með fréttinni á Reykhólavefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert