Stjórn Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins að skipta um þingflokksformann. „Ragnheiður Elín hefur verið einn öflugasti liðsmaður þingflokksins á þessu kjörtímabili og staðið vaktina sem þingflokksformaður þannig að eftir því er tekið. Er það ekki síst því að þakka að Suðurkjördæmið er eitt sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, þar sem Ragnheiður er oddviti,“ segir í ályktun frá stjórn fulltrúaráðsins.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið við stöðu þingflokksformanns að nýju. Ákvörðun um þetta var tekin í morgun.
Stjórn Fulltrúaráðsins telur þessa ákvörðun formannsins vera þess eðlis að veikja þingflokk Sjálfstæðisflokksins nú þegar kosningar nálgast.
Stjórnin skorar á forystu flokksins að sjá að sér í þessu máli og vinna heldur að því að sameina flokkinn en ekki sundra.